Í skóla þjóðernissinna og þjóðernisstefnu fylgt

Eftir liðskönnun og heilsufarsyfirlit var fyrsta verkefni stjórnenda að afhenda okkur spjald með reglum þeim er halda bæri innan OG utan skólans. Mig minnir að þær hafi verið tíu talsins (maður gleymir ýmsu á 44 árum).

Að sama skapi minnir mig að fyrsta reglan hafi verið: "Vernda skaltu tungu þína og þjóðerni". Það fengi nú einhver hland fyrir hjartað nú á dögum.

Frá fyrstu tíð hefur íslenska verið mitt áhugamál. Í skólanum varð ég fyrir miklum áhrifum og styrkti enn frekar þetta eftirlætisáhugamál mitt og gerði mig að þeim málfarsfasista sem ég er orðin. Að sjálfsögðu hef ég skoðað fleiri tungur Tounge, en einungis reynt að vernda þá íslensku.

Á sama hátt og mér finnst að eigi að vernda hús og margskonar minjar sem gegna hlutverki "myndaalbúms" sögunnar, finnst mér tungumálið eigi að vernda sem best. Ekki dugar að halda einu og einu húsi við og vernda. Það væri eins og að setja eina og eina gulltönn upp í tannlausa manneskju. Ekki er heldur til mikils að flytja þessar minjar, það væri eins og að setja gulltennurnar í krukku og geyma á safni.

En það ætti ekki síður að vera kappsmál að vernda tunguna okkar. Þess vegna er mér svo umhugað að benda á það sem virðist vera mjög smitandi í málfari okkar.

Nokkur dæmi:

Fólk spáir í því? Það á að spá í ÞAÐ. Aftur á móti pælir maður í áhugamálinu (örugglega víxlum)

Fólk heimsækir fólk á sjúkrabeðið. Beð í hvorugkyni er t.d. blómabeð. Dauðvona maður liggur á dánarbeðnum(kk. beður)

Sumir eru ginkeyptir fyrir e-u. Ef ekki er átt við drykkinn Gin, þá segir maður ginnkeyptur.

Hjá sumum hleypur snuðra á þráðinn. Að snuðra er að leita uppi, þvælast í forvitni. Snurða er aftur á móti snúður eða hnökri á bandi.

Svo hellast margir íþróttamenn úr lestinni, blautir hljóta þeir að vera. Að heltast úr lestinni þýðir aftur á móti að verða haltur og geta ekki fylgt hópnum (lestinni)

Orðinn of stór skammtur að sinni. Biðst velvirðingar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Farðu nú ekki að biðjast afsökunar á þér. Haltu endilega áfram að hella úr viskubrunni þínum, skálum geðvonsku þinnar og deila pirringi þínum með öðrum.  Svona ljómandi skemmtilegur penni, "beturvitringur" með skoðanir á flestu sýnist mér, óhræddur við að láta þær í ljós. Sannkölluð himnasending á bloggið þar sem flestir jarma í kór, þeir sem þora að tjá aðrar skoðanir en meðalmennskunnar eru umsvifalaust skotnir í kaf. Nei, vitringur góður haltu endilega áfram og hafðu skammtana sem stærsta.

Nefrodíta 19.1.2008 kl. 06:53

2 identicon

Þetta fellur þér örugglega vel í geð: Maður nokkur var að lýsa því þegar Bobby Fischer þáði boð á heimili hans og komst þannig að orði: ..."þegar hann kom inn úr þröskuldinum"... (Vikulokin í dag á Rás 1).

Nefrodíta 19.1.2008 kl. 11:24

3 Smámynd: Beturvitringur

Dæmigert. Hann var víst mikill einfari, en að bora sig inní þröskuldinn!Hugsum við ekki þýðingu þeirra orða sem við notum? Notum við bara þau orð sem við höfum heyrt e-s staðar í e-u samhengi, e-n tíma?

Í útvarpi heyrðist fyrir 1-2 vikum, ... fólkinu varð svo mikið um að það hljóp upp milli handa og fóta. Og, nei, þetta er ekki uppspunninn brandari............

Beturvitringur, 19.1.2008 kl. 14:03

4 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Kannski hefur fólkið verið í höfrungahlaupi - og þó.....

Markús frá Djúpalæk, 20.1.2008 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband