Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Dómur fallinn í Spaugsmálinu

Ótilkvaddir héra- og æstaréttardómarar hafa kveðið upp sinn dóm um FYNDNI.

 

Góðir hálsar, standist spaug, brandari eða ádeila ekki kímnigáfnapróf rétta fólksins ER ÞAÐ EKKI FYNDIÐ! Ekki er hægt að vísa til hærra dómstigs hér á landi en hugsanlega má vísa málinu til föðurhúsanna.

Með öðrum orðum:  Sá sem hlær að mínum brandara er húmoristi. Hlægi það mig ekki, er það ekki fyndið.

Dómarar koma víða að en akkur þykir af því að vera áberandi duglegur að koma sér á framfæri, vera með myndugan alvörusvip, vel menntaður (allavega skólagenginn), í góðri stöðu og hafa þá staðföstu trú að maður sé afspyrnugáfaður.

Hafi dómari ofangreinda þætti til að bera ÞEKKIR hann svo sannarlega muninn á því hvort gríngengi sé að spegla fáránleika stjórnmálaumræðunnar (sem felst í því núa fólki hverju sem er um nasiri)  EÐA hvort illa innrætt gengið sé eitt og sér og sjálft með skítkast.  Við hin sem skildum þetta eins og það var meint (skv. Karli Á Úlfssyni í Kastljósi) vitum samt sem áður ekkert um fyndni, því enginn deilir við dómarann.

Eini sjúkleikinn sem virðist hrjá ÓFM er skortur á húmor fyrir sjálfum sér.


Brúðarsveinar og -meyjar nýju borgarstjórnarinnar: Sviðsframkoma

Sumir stjórnmálamenn vita ekki í hvort fótinn þeir eiga að stíga, - enda ekki von.

Einn hópur hegðar sér á ákveðinn hátt - og hlegið er að því.

Næsti hópur gætir sín; vill ekki verða að athlægi - og hlegið og býsnast er yfir því.

Dularfullu mónulísuandlitin sem sáust í bakgrunni við vígslu Vilhjálms og Ólafs eiga sér skýringu.  Sumir dæstu og sögðu:  "... að þetta væri hnípinn hópur" og "ekki var gleði í andlitum þessa fólks".

Ég er mjög gleymin, man bara það sem skiptir engu máli.

Ég man t.d. þegar s.k. kvartett skeiðaði að Tjarnarbakkanum, keik og kná, falleg og brostu breitt, ánægð með hlutskipti sitt. Mjög margir gerðu grín að þeim og sögðu þau eins og smákrakka á leið i Tívolí.

Nú hafa hóparnir þeirra VÞV og ÓFM aldeilis gætt sín á að lenda ekki í því sama! Þessi grey þorðu ekki einu sinni að brosa blíðlega. Þau límdu niður brosvöðvana, það skyldi sko enginn sjá að þau kættust yfir sínu hlutskipti.

Svo nú er vandlifað.  Ekki brosa. Ekki, ekki brosa.


Mótmælendur O G skríll (ath! ekki "eða")

Það er alveg sjálfsagt og réttmætt að mótmæla því sem manni þykir óhæfa.

Margir lögðu leið sína á fundarpalla Ráðhússins en það var allmislitur hópur. Suma mætti nánast kalla leigumótmælendur (ekki "atvinnu-", fengu vísast engin laun önnur en útrásina). 

Það má samt EKKI gleyma því að þarna var hópur siðaðs fólks sem kominn var til að fylgjast með, og/eða mótmæla nýju stjórninni. Þessi hluti lét að engu óðslega og sumir sögðust hafa fyrirvarið sig fyrir að hafa hugsanlega verið álitnir sem hluti skrílslátahópsins


SKILDI bara ég SPAUGSTOFUNA?

Eða skildu hana allir nema ég? 

Semja eða segja frá. Háttur SpSt er að taka upp allskyns málefni og snúa þeim, ef þannig stendur til, upp á andsk....  Man ekki að þeir hafi beint búið til atburði. Skrumskælt þá. Já, já, já og margtogað í brosvöðvana.

Mér heyrist að mörgum hafi þótt Spst fara "illa að ráði sínu" og "lagst lágt", "farið yfir mörkin" og þaðan af verra.

Meðan á þættinum stóð hugsaði ég oft: "Gott hjá þeim, já, helv... er þetta gott á þau."

Nú stend ég frammi fyrir því að  vita ekki hvort ég hvatti rétt lið. (sbr. hér að ofan: "þau")

Ég skildi sneiðina þannig að Spaugstofumenn væru að sýna okkur fram á þá fáránlegu ímynd sem verið hefur reynt að koma inní hausinn á okkur um ÓFM

Mér er fjandans saman hvort ÓFM þjáðist af þrálátri berkjubólgu eða þunglyndi. Ef hann hefur náð heilsu er það þá bara ekki fínt?

Hafi hann verið með berkjubólgu hefði mér fundist sjálfsagt að mótmælendur á pöllunum heltu yfir hann klakavatni og tækju hitann af, ef vera kynni að þeim tækist nú að láta honum slá niður.

 


Þrældómur út yfir gröf og dauða... og fleira

Sumt séð og sumu skotið að mér frá bloggvinum og fleirum

"Fokhelt hús fauk á Suðureyri"

"Lenti í átökum við Reykjavíkurapótek"

Maður nokkur var að lýsa því þegar Bobby Fischer þáði boð á heimili hans og komst þannig að orði: ..."þegar hann kom inn úr þröskuldinum"... (Vikulokin í dag á Rás 1).

Auglýsing í blaði: "Lærið söng"

Fyrirsögn: "LÁTNIR ÞVO BÍLA Á NÓTTUNNI"

Frásögn í útvarpi: "Slökkvistarfið gekk vel, allt brann sem brunnið gat"

Nefródíta sendi mér frábæra athugasemd sem ég hafði ekki pælt í: **********

Sumir vilja "jafna launabilið", aðrir vilja "auka jafnréttið" Hvar er fólkið sem einfaldlega vill "jafnrétti"?

"Jafna launabilið"?! Ég kann íslensku ekki nógu vel til að vita hvað þetta getur hugsanlega átt að þýða. ***************** Nefródíta hugsar :)

"Það er ekki vitað, svo vitað sé"


NÁMSKEIÐ sem ná EKKI til þeirra sem helst þurfa

Ég er að hlusta á Útvarp Sögu, þátt í umsjón Markúsar Þ Þórhallssonar. Fjallað er um ýmis námskeið.

Oft hef ég hugsað og talað um afkvæmanámskeið, líkt og MÞÞ spurði um. Við þurfum kennslu t.d. ef við kaupum okkur hljóðfæri, jafnvel myndavél. Okkur þykir líka sjálfsagt að fara með litla sæta hundinn okkar á hlýðninámskeið. Það þarf að læra að hvetja, umbuna, skilyrða jákvætt, setja mörk og allt það.

Hvað með börnin og unglingana okkar? Eigum við bara að láta skeika á sköpuðu? Er það enn einu sinni "þetta reddast" aðferðin?

Vandamál ungmenna sýna að sú aðferð gengur ekki alltaf. Það er enginn vandi að skaða/eyðileggja barn og framtíð þess. Ofbeldi í algengustu merkingu þess orðs er annar kapítuli, - en andleysi, afskiptaleysi, vantraust, skortur á hvatningu og hrósi eykur allt líkurnar á því að barnið fari inná "ranga braut"

Ekki meira um þetta að sinni, en góðra gjalda verð námskeið eru bara ekki sótt af þeim foreldrum (fólki) sem helst þyrftu.

Margoft hef ég setið námskeið og glaðst yfir áhuga og innleggi þátttakenda og hugsað - hvar er fólkið sem ætti að vera hér?

Vímuefnafíklar eru ólíklegir til að sækja námskeið um vímuvarnir.  Foreldrar sem einkennast af afskipta- og sinnuleysi, skrá sig ekki og borga sig inná uppeldisnámskeið.

Hvað er hægt að gera?


Laugavegur 4 og 6 - Fjallkonan með sílíkonbrjóstin

Þótt takist að koma í veg fyrir að 101 Reykjavík líti, áður en langt um líður, út eins og lofttæmd og sótthreinsuð geymsla fyrir andlausa "coma"búana, er það ekki alveg nóg. 

Ég er svo forpokuð að þegar ég sé vel og fallega uppgerð hús sem fyllilega eru nýtt, - sem heimili, verslanir eða fyrir annars konar starfsemi, slær nálykt (lærði þessa málnotkun af menntamanni) fyrir vit mér að sjá merkingar á sumum þeirra.

Hugsum okkur sjónlínu eftir Laugavegi t.d. frá Lækjargötu að Snorrabraut: Falleg, gömul, vel viðgerð og vel viðhaldin hús. Franskir gluggar og útskornir gluggakarmar að upprunalegri mynd komnir í stað starandi augnatóftanna.

Hvað svo? Á Laugavegi 4 gæti t.d. staðið

"Tattoo Parlor", "Flop Shop", "Totally Lust", "Cute Princess". 

Næsta hús gæti svo t.d. borið:

"Gekt Hot", "Fucking Cool", "Catch Up", "No Shit",

Svo auðvitað til minningar um gamla verslun ofarlega á Laugaveginum: "The Coats' and Ladies' Shop" og "Textil and Yarn"

Nei, bra sei sona.


Í skóla þjóðernissinna og þjóðernisstefnu fylgt

Eftir liðskönnun og heilsufarsyfirlit var fyrsta verkefni stjórnenda að afhenda okkur spjald með reglum þeim er halda bæri innan OG utan skólans. Mig minnir að þær hafi verið tíu talsins (maður gleymir ýmsu á 44 árum).

Að sama skapi minnir mig að fyrsta reglan hafi verið: "Vernda skaltu tungu þína og þjóðerni". Það fengi nú einhver hland fyrir hjartað nú á dögum.

Frá fyrstu tíð hefur íslenska verið mitt áhugamál. Í skólanum varð ég fyrir miklum áhrifum og styrkti enn frekar þetta eftirlætisáhugamál mitt og gerði mig að þeim málfarsfasista sem ég er orðin. Að sjálfsögðu hef ég skoðað fleiri tungur Tounge, en einungis reynt að vernda þá íslensku.

Á sama hátt og mér finnst að eigi að vernda hús og margskonar minjar sem gegna hlutverki "myndaalbúms" sögunnar, finnst mér tungumálið eigi að vernda sem best. Ekki dugar að halda einu og einu húsi við og vernda. Það væri eins og að setja eina og eina gulltönn upp í tannlausa manneskju. Ekki er heldur til mikils að flytja þessar minjar, það væri eins og að setja gulltennurnar í krukku og geyma á safni.

En það ætti ekki síður að vera kappsmál að vernda tunguna okkar. Þess vegna er mér svo umhugað að benda á það sem virðist vera mjög smitandi í málfari okkar.

Nokkur dæmi:

Fólk spáir í því? Það á að spá í ÞAÐ. Aftur á móti pælir maður í áhugamálinu (örugglega víxlum)

Fólk heimsækir fólk á sjúkrabeðið. Beð í hvorugkyni er t.d. blómabeð. Dauðvona maður liggur á dánarbeðnum(kk. beður)

Sumir eru ginkeyptir fyrir e-u. Ef ekki er átt við drykkinn Gin, þá segir maður ginnkeyptur.

Hjá sumum hleypur snuðra á þráðinn. Að snuðra er að leita uppi, þvælast í forvitni. Snurða er aftur á móti snúður eða hnökri á bandi.

Svo hellast margir íþróttamenn úr lestinni, blautir hljóta þeir að vera. Að heltast úr lestinni þýðir aftur á móti að verða haltur og geta ekki fylgt hópnum (lestinni)

Orðinn of stór skammtur að sinni. Biðst velvirðingar.

 


LÍFEYRISÞEGAR ekki endilega VERST SETTIR

Ekki er sama hver lífeyrisþeginn er. Sumir eru eignamenn og geta nýtt eignir sínar þegar í harðbakkann slær. Það á við um ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og hugsanlega fleiri sem ég ekki kann að nefna.

Lífeyrisþegar eru misjafnlega á sig komnir; sumar illa farnir og sumir hreint ósjálfbjarga. En það eru líka margir sem komast ágætlega af, með guðs hjálp og góðra manna.

Sárust eru kjör fólks sem er á vinnumarkaði á afspyrnulélegum launum og hefur það virkilega skítt. Eins og í öðrum hópur er það fólk með börn á framfæri sínu.

Skoðum dæmi af sæmilega höldnum lífeyrisþega annars vegar og láglaunamanni hins vegar. Hefðu þeir sömu mánaðartekjur (m.t.t. ívilnana, bóta o.þ.u.l.) þá hallar nú heldur betur á þann sem mætir daglega til vinnu.

Berum saman: Láglaunamaðurinn sem telst heill heilsu og er ekki kominn á ellilífeyrisaldur hann fær ekki sömu viðurgjörðir og lífeyrisþeginn:

Hann fær ekki afslátt við lyfjakaup

Hann fær ekki afslátt innan heilbrigðiskerfisins

Hann fær ekki afslátt af strætófargjöldum

Hann fær ekki ókeypis í sundlaugar

Hann fær ekki afsláttarkort vegna læknisheimsókna við jafn lága upphæð og lífeyrisþeginn

Hann fær ekki afslátt vegna gleraugnakaupa (suma fyrirtæki)

Hann fær ekki afslátt vegna ýmissar þjónustu (sum fyrirtæki)

Hann fær ekki styrk til bensínkaupa

Hann fær ekki niðurfelldan bifreiðaskatt

Hann fær ekki afslátt af fasteignaskatti

Hann fær ekki endurgreiddan hluta tannlækniskostnaðar(ákv. verk)

en

Hann verður að eiga eina og helst tvær bíldruslur

Hann verður e.t.v. að eyða meiru í fatnað (til að geta látið sjá sig í vinnunni)

Hann þarf að kaupa strætókort ef hann á ekki bíl (annars umtalsverður bensínkostnaður)

Hann þarf að greiða að fullu fyrir barnagæslu

Hann þarf að verja lengri tíma fjarri börnum sínum (fjölskyldu)

Hann þarf sennilega að kaupa dýrara fæði (minni tími aflögu til búkonusparnaðar)

Hann þarf að eyða tíma, bensíni og öðrum bifreiðakostnaði til og frá vinnu

 

Ég tilheyri fyrri hópnum; hamingjusamur 25% yrki á launum hjá ríkinu. (Bara svo e-r haldi ekki að hvötin til skrifanna sé öfund. Það er enginn umræddra hópa öfundsverður).


Meðferð KVÓTANS e-s staðar í ferlinu skilgreind sem ÞJÓFNAÐUR?

... stuldur, rán eða ólögleg yfirtaka? Ef svo er/væri, yrði viðsnúningurinn einfaldur.

Kaupi maður illa fengna vöru, má gera hana upptæka án nokkurra bóta. Það á líka við þótt varan sé keypt/fengin í góðri trú um að allt sé löglegt.

Við gætum keypt fínan flatskjá á góðu verði. Komist svo upp um þjófnaðinn og þýfið megi rekja til okkar, - værs'go = =  UPPHAFLEGA EIGANDANUM er skilað því sem honum ber.

E.S. Af hverju notum við ekki

"kvóti" (e. quota) þegar við eigum við "hluta", "skerf" eða "skammt"

og

"kódi" / "kóði" (e. code)  þegar við eigum við "dulmál", "dulmálslykil", "táknróf", "merkjamál"

Kannski heyri ég illa en mér heyrist þeir sem fjalla um kvótann; þingmenn, sjómenn o.s.frv. tala um "kóda" en kannski eru þeir linmæltir þegar þeir segja "kóti".

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband