Leikritið "Biedermann og brennuvargarnir" eftir svissneska rithöfundinn Max Frisch var frumsýnt í Zürich vorið 1958. Hér var það fyrst sett á svið vorið 1962 í Tjarnarbæ. Þar segir frá einföldum oddborgara, sem leyfir tveimur skálkum að setjast upp hjá sér og gera sig heimakomna. Þeir reyna lítt að dylja, að þeir ætla að kveikja í húsinu, og kona Biedermanns varar hann við. En Biedermann er fullur sektarkenndar og ótta og lokar augunum fyrir hættunni. Hvers vegna á hann að vera vondur við þessa aðkomumenn? Ræður hann hvort sem er við þá? Að lokum réttir hann þeim eldspýturnar til að tendra eldinn.Þótt Frisch kallaði sjálfur leikritið "prédikun án boðskapar", er margt í því bersýnilega sótt í valdarán kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948. Einnig má lesa úr því ádeilu á andvaraleysi lýðræðissinna í Norðurálfunni gagnvart Adolf Hitler og þjóðernisjafnaðarmönnum hans fyrir stríð.
Skopmyndir og málfrelsi
Tveir danskir menntamenn, hjónin Karen Jespersen og Ralf Pittelkow, halda því fram í bókinni Íslamistar og naívistar, sem birtist fyrir skömmu á íslensku, að nýir brennuvargar séu komnir til Evrópu: Íslamistar. Síðustu áratugi hefur fjöldi múslima flust til Norðurálfuríkja.
Flest er þetta gott fólk í leit að betri lífskjörum. En meðal þess hefur risið upp hreyfing, íslamisminn, sem ræðst beint á ýmis vestræn verðmæti, aðallega málfrelsi og jafnrétti kynjanna. Þegar Jótlandspósturinn birti skopteikningar af Múhameð spámanni, ætlaði allt um koll að keyra í ýmsum múslimalöndum og í röðum danskra íslamista. Teiknararnir urðu að fara í felur. Þótt í ýmsum múslimaríkjum, einkum Íran og Sádi-Arabíu, sé rekinn hatursáróður gegn kristni og Gyðingdómi í skólum og fjölmiðlum, vildu erindrekar þessara ríkja takmarka frelsi til að gagnrýna Íslam opinberlega í vestrænum löndum. Þeir vildu í raun hrifsa af okkur dýrmætan ávöxt mörg hundruð ára frelsisbaráttu, málfrelsið.
Morð og morðhótanir
Önnur dæmi eru alkunn. Rithöfundurinn Salman Rushdie, breskur ríkisborgari, var dæmdur til dauða í Íran fyrir eitt verk sitt og verður að fara huldu höfði. Ayaan Hirsi Ali, flóttakona frá Sómalíu, skrifaði handrit og var þulur í heimildarmynd um kúgun kvenna í múslimaríkjum, sem hollenski leikstjórinn Theo van Gogh gerði. Íslamisti einn myrti van Gogh í nóvember 2004 og sendi Hirsi Ali morðhótanir, svo að hún varð að fá lögregluvernd.
Hættan er aðallega af ofsatrúarfólki í hópi innflytjenda frá múslimaríkjunum. Þótt það meti góð lífskjör í Norðurálfuríkjunum nógu mikils til að flytjast þangað, sættir það sig ekki við frumverðmæti hins vestræna menningarheims, til dæmis jafnrétti kynjanna. Íslamistar í hópi innflytjenda reyna að kúga konur á sama hátt og gert er í Íran og Sádi-Arabíu (en ekki víða annars staðar í múslimaríkjum). Þær eiga að hylja sig, ganga með höfuðklút, tákn ófrelsis og kúgunar. (Raunar er eðlilegast að banna slíka klúta af öðrum ástæðum en trúarlegum: Þeir eru dulbúningar. Unnt verður að vera að bera kennsl á fólk á förnum vegi.)
Einfeldningar eins og Biedermeyer
Sumir Vesturlandabúar myndu vitna í gamalt spakmæli: Eftir landssið skulu lifa þegnar. Ef múslimskir innflytjendur vilja ekki sætta sig við vestrænan landssið, málfrelsi og jafnrétti kynja, þá ættu þeir að snúa aftur til múslimaríkjanna. Aðrir Vesturlandabúar láta eins og Biedermayer (eftirnafnið skolast til / ylhyra) sektarkennd og ótta stjórna sér og loka augunum fyrir hættunni. Þeir afsaka jafnan íslamistana.
Þegar Ayuun Hirsi Ali kom til Íslands á vel heppnaða bókmenntaráðstefnu haustið 2007, skrifaði ungur blaðamaður, að gagnrýni hennar á stjórnarfar í múslimaríkjum væri "ófrumleg og einfeldningsleg". Hefði hann sagt hið sama um gagnrýni Þórbergs á stjórnarfar í Þýskalandi fyrir stríð?
Fréttablaðið sagði frá því 26. nóvember 2001, að stjórnendur Austurbæjarskóla hefðu tekið svínakjöt af matseðli skólans "í virðingarskyni" við þá nemendur, sem ekki snæði slíkt kjöt sakir trúar sinnar. Þetta hljómar sakleysislega, en kann að vera upphaf að öðru ískyggilegra. Íslendingar þurfa að fylgjast vel með þeim, sem gera sig líklega til að verða brennuvargar. Biedermayer (eftirnafnið skolast til / ylhyra) hugsaði: Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki. Við hljótum að svara: Skálkurinn mun skaða þig, ef hann getur, svo að best er að vera við öllu búin.
Athugasemdir
Orð í tíma töluð hjá Hannesi.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 29.3.2008 kl. 14:12
Skynsamlega mælt hjá HHG og skynsamlegt af þér, Beturvitringur, að birta þetta.
Þeir eru margir Biedermann-arnir í Evrópu.
Nefródíta 29.3.2008 kl. 20:36
Ef þú ert moggabloggari vildi ég gjarnan biðja þig að vera bloggvinur minn! En kannski ertu bara skoðari, eða?
Beturvitringur, 29.3.2008 kl. 22:18
Sko, þú, - NEFRÓDÍTA
Beturvitringur, 29.3.2008 kl. 22:19
Myndi taka þér opnum örmum ef ég væri bloggari, en get ekki því ég er bara skoðari OG aðdáandi.
Nefródíta 29.3.2008 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.