KRÓKADÍLL í kerfinu (Holræsa-? Nei, heilbrigðis-)

Gott tilboð en bara uppselt

Ég hélt ég væri í góðum díl við heilbrigðiskerfið, en mætti krókadíl.

Ætlaði mér aldrei að blogga um sjálfa mig en mér var bara ofboðið.

Hvað ef ég væri ekki ég, heldur gömul kona (eða karl), óframfærinn unglingur eða annar sem treysti á kerfið án þess að reyna að bera hönd fyrir höfuð sér þegar á móti blési?

Læt þessa "sögu" frá mér sem víti til varnaðar og ábendingu fyrir ástvini þeirra sem lasnir eru og hafa ekki þrek eða uppurð til að olnboga sig áfram í frumskóginum án hjálpar. Svo vonast ég auðvitað líka eftir einhverri vorkunnsemi

Þegar ég fer út úr húsi er ég yfirleitt á leið til að hitta einhvern úr heilbrigðiskerfinu. Allar færslur í dagbókinni minni byrja á: "hjúkrunar-, sjúkra-, heilsu-, læknis-, rannsóknar- eða öðru í svipuðum dúr, sem ég man ekki að nefna í augnablikinu.

Yfirleitt fæ ég frábæra þjónustu; allir elskulegir, hjálpsamir og nærgætnir, en bara EKKI ALLTAF.

Um daginn fékk ég óbærilega verki. Hafði áður verið „bara" slæm.  Svo illa var ég haldin að klósettferð varð að dagsverkefni og það með óhljóðum.

„Eftir helgina" hringdi ég í gigtarlækninn minn og bað um að hann hringdi í mig (þann háttinn hefur hann á símaviðtölum) 

Einhverra hluta vegna náði hann ekki að sinna því. Um nóttina, svefnlaus af verkjum, sendi ég honum rafpóst; sagðist illa haldin og hvort hann héldi að hann gæti eitthvað reynt að hjálpa mér.

Hann hringdi daginn eftir, sagði mér að panta tíma hjá honum og ávítaði mig fyrir að hafa haft samskipti með rafpósti, - það væri lögbrot.

Fékk tíma hjá honum eftir 12 daga!!!  Nú var ég farin að tárast. Gat engan veginn verið, stöðugir verkir, líka sitjandi og liggjandi. Gat ekkert gert. Svona gæti ég ekki verið í næstum hálfan mánuð!  Furðulegt hvað það ofarlega samt að komast ekki með góðu móti á klóið.

Pantaði tíma hjá heimilislækni. Fékk tíma eftir 8 daga! Of langt líka.

Reyndi að fá tíma „bara hjá einhverjum" í læknastöðinni þar sem „minn" er. Enginn laus fyrr en „minn".  Mér bent á Gigtarfélagið.

Gigtarfélagið með einn lækni, tekur ekki fleiri sjúklinga. Mér bent á Göngudeild gigtarsjúklinga.

Göngudeild gigtarsjúklinga tekur ekki á móti fleiri (nýjum?) sjúklingum. Bent á Læknavaktina.

Læknavaktin bendir mér á að réttari leið sé að fara á Bráðamóttökuna.

Bráðamóttakan gat ekki sinnt þessu og baðst frá því að ég kæmi, þeir gætu ekkert hafst að.

Einhvern þeirra sem ég talaði við í þessari þvögu, spurði hvort ekki væri bara skást að lenda í „mjúku bílslysi" Farið væri þá allavega með mig í sjúkrabíl á einhvern stað til aðhlynningar.

Tveimur dögum eftir að „minn" ávítaði mig fyrir rafpóstsendinguna og ofangreindar bænaleiðir, fór ég á Læknavaktina, án þess að gera boð á undan mér. Þaðan fór ég með lyfseðil fyrir 20 stk af verkjalyfi.

Er þetta algengt?  Hvert á maður að leita í bráðanauðsyn?  Hvað gera aðstandendur andlega og líkamlega sjúkra þegar svipað stendur á?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Kæri Beturvitringur. Það er búið að skemmileggja kerfið. (Já nú hrósar þú íslenskunni) Þó er best að benda þér á Bráðamóttöku. Berðu þig bara nógu djöfullega. Við heilbrigðisstarfsmenn erum ekkert ýkja hrifnir af ástandinu.

Hólmdís Hjartardóttir, 9.4.2008 kl. 03:46

2 Smámynd: Beturvitringur

Einmitt, ég hef ekkert nema gott um starfsfólkið að segja, - það er bara að ná í það þegar maður þarf. Hver skemmileggur þetta alltaf?

Beturvitringur, 9.4.2008 kl. 03:48

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Niðurskurður...sparnaður....engin skerðing á þjónustu

Hólmdís Hjartardóttir, 9.4.2008 kl. 03:53

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Komdu bara upp á Akranes,  þar er frábær þjónusta!

Fólkið í heilbrigðiskefinu er upp til hópa yndislegt en kerfið orðið slæmt. Ég átti t.d. að sprauta mig sjálf með blóðþynningarlyfi daginn fyrir stóra aðgerð, lá síðast á sjúkrahúsi 25 árum áður til að eiga barn, og er að auki ansi sprautuhrædd ... nei, þetta var sparnaður svo ekki þyrfti að leggja mig inn degi fyrir aðgerð! Ég er enn í sjokki ...

Hræðileg þjónusta sem þú hefur fengið og enn á þetta eftir að versna, skilst manni. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.5.2008 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband