24.11.2008 | 18:53
Þarf nokkur að spara? (Getur reynst dýrt að reka 900m2 bústað : ( )
Ef til vill ekki gustuk að leiðbeina við raforkusparnað þar sem það gæti vel orðið til þessa að orkuveitan hækkaði raforkuverð VEGNA MINNI NOTKUNAR, enda fordæmi fyrir því (á hlýju sumri forðum)
En það er samt góðra gjalda vert að þeir gáfu út þessar leiðbeiningar - sem sagt í boði orkusala:
Rafmagnssparnaður
Hvað get ég gert til að spara rafmagn?
Almennt þú getur auðvitað sparað með því að nota færri raftæki og nota þau minna, en að auki er ýmislegt hægt að gera til frekari sparnaðar. Oft nota ný heimilistæki talsvert meira rafmagn en gert var ráð fyrir, dæmi eru vatnsrúm og stórir tölvuskjáir.
Notið rétta ljósgjafa
Rétt val á ljósgjafa er mikilvægt. Notið ekki stærri perur en þið þurfið og gætið að því að lampabúnaðurinn dragi ekki um of úr birtu. Notið flúorpípur þar sem þess er kostur.
Notið ljósa liti í umhverfið Umhverfið ræður miklu um hve mikla lýsingu þarf. Ljósir litir á lofti, veggjum, gluggatjöldum og gólfum geta sparað mikla lýsingu. Haldið lömpum hreinum.
Slökkvið á eftir ykkur
Munið að slökkva á eftir ykkur. Oft loga ljós að óþörfu þar sem engin hefst við. Slíkt getur einnig skapað eldhættu.
Uppþvottavélin
Fyllið uppþvottavélina. Hún notar jafnmikla orku hvort sem mikið eða lítið er þvegið í einu. Notið sparnaðarhnappinn (E) eins oft og kostur er. Potta og önnur áhöld sem taka mikið rými, er ekki hagkvæmt að þvo í uppþvottavélinni.
Þvoið upp sem fyrst svo að matarleifar nái ekki að þorna. Þá nægir styttra þvottakerfi og lægra hitastig.
Þvottavélin
Fyllið vélina af þvotti. Það kostar álíka mikið að þvo lítinn og mikinn þvott. Hafið ekki of hátt hitastig. Vélin notar 30% minni orku, ef hitinn er lækkaður um þriðjung. Sleppið forþvotti, ef þvotturinn er lítið óhreinn. Það sparar 20% orku. Skolun með köldu vatni fyrir þvott getur sparað orku. Hvort sem um er að ræða þvottavél fyrir klæðnað eða leirtau, er hægt að sleppa forþvotti fyrir vikið.
Þurrkarinn
Vindið þvottinn sem best áður en hann er settur í þurrkarann. Hreinsið lósíuna eftir hverja notkun.
Setjið hæfilegt magn af þvotti í þurrkarann, hvorki of mikið né of lítið. Hvort tveggja veldur meiri orkunotkun en ef þurrkað er hæfilegt magn í einu. Notið sparnaðarstillingu þegar henni verður við komið.
Örbylgjuofninn
Tími og orka sparast þegar matreitt er í örbylgjuofni. Það tekur 7 mínútur (0,14 kWh) að matreiða 250g af kartöflum í örbylgjuofni, en 25 mínútur (0,22 kWh) á eldavél. Notið eldunaráhöld sem henta örbylgjuofninum. Sjóðið eða hitið matinn í lokuðum ílátum, þannig helst hitinn betur á matnum og orka sparast. Með því að nota lítið vatn þarf styttri suðutíma. Oft er hægt að sleppa vatninu alveg þegar matreitt er í örbylgjuofni.
Eldavélin
Gætið þess að potturinn sé hæfilega stór á helluna. T.d. fer 20% orkunnar til spillis ef potturinn er 2 cm minni í þvermál en hellan. Ósléttur botn á potti eða pönnu getur valdið 40% meiri rafmagnsnotkun.
Notið þétt lok á pottinn og takið það ekki af meðan soðið er. Ef lokið er ekki á pottinum þarf tvöfalt meiri orku en ella. Það þarf tvisvar til þrisvar sinnum meiri orku að glóðarsteikja í ofninum en að steikja á hefðbundinn hátt.
Frystikistan
Æskilegt er að frystikistan sé á köldum stað. Hún notar 5% minna rafmagn fyrir hvert stig sem umhverfishitinn er lægri.
Hæfilegt hitastig í kistunni er um -18°C. Rafmagnsnotkunin eykst um 5% fyrir hvert stig sem hitinn er lægri.
Gætið þess að kæliristin á bakhlið kistunnar sé hrein og að nóg loft geti leikið um hana. Innilokuð og rykug kælirist getur valdið 30% meiri rafmagnsnotkun. Látið frystikistuna ekki ganga tóma. Tóm kista notar jafnmikið rafmagn og full.
Ísskápurinn
Hæfilegt hitastig í kæliskápnum er -4 til 5°C. Rafmagnsnotkun eykst um 4% fyrir hvert stig sem hitinn er lækkaður.
Gætið þess að loftræsting sé nægjanleg bak við kæliskápinn. Léleg loftræsting getur valdið 5-10% meiri rafmagnsnotkun.
Kæliskápa sem ekki eru með sjálfvirka afhrímingu þarf að þíða reglulega.
Kaffivélin
Það sparast um 30% með því að laga kaffið í kaffivél í stað þess að nota hraðsuðuketil og hella uppá á gamla mátann.
Notið hitakönnu til að halda kaffinu heitu, en ekki hitaplötu kaffivélarinnar.
Gleymd notkun
Mörg heimilistæki nota rafmagn jafnvel þó að þau séu ekki í gangi. Þetta eru tæki sem búin eru fjarstýringu og eru tilbúin til að hlýða skipun frá henni t.d. sjónvörp, hljómtæki, myndbandstæki o.fl. Öll þessi tæki auka orkunotkunina. Þó svo að þau taki lítið afl er oftast kveikt á þeim allan sólarhringinn allan ársins hring.
Sjónvörp
Í sjónvarpi getur aflið, sem tækið notar þó slökkt sé á því með fjarstýringu, verið frá 3 til 18 Wött sem þýðir að orkunotkun þessa tækis verður milli 25 og 160 kWh á ári ef tækið er í sambandi allt árið. Þessa eyðslu má spara með því að slökkva alveg á sjónvarpinu auk þess sem það minnkar hættu á íkveikju.
Myndbandstæki
Myndbandstæki sem stjórnað er með fjarstýringu notar um 100 kWh á ári. Það að slökkva alveg á myndbandstækinu hefur bæði kosti og galla. Ef slökkt er alveg á tækinu sparast þessar 100 kWh en á móti þarf oft að endurstilla klukku og dagsetningu þegar kveikt er næst.
Önnur tæki
Spennar fyrir amerísk 110 volta heimilistæki nota orku þó svo að þau séu ekki í gangi. Þá er rétt að átta sig á því að ýmis tæki gætu verið tengd án þess að við munum eftir því t.d. loftnetsmagnarar, rafmagnsklukkur og klukkur í ýmsum tækjum eins og t.d. í örbylgjuofnum, eldavélum og útvarpsklukkum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Lífstíll, Viðskipti og fjármál | Breytt 25.11.2008 kl. 00:06 | Facebook
Athugasemdir
Góður
Ómar Ingi, 24.11.2008 kl. 20:02
Ég reyni alltaf að spara rafmagn og hef ég gert það í mörg ár. Það er ekki kveikt á ljósum þar sem enginn er, uppþvottavélin er bara notuð þegar hún er orðin full og þvottavélin líka. Svo keypti ég sparperur þar sem ljósin loga oftast hérna heima hjá mér. Svo hef ég ekki hleðslutæki fyrir hin ýmsu tæki í sambandi nema að ég sé að nota það. Ég slekk á öllum fjarstýrðum tækjum áður en ég fer að sofa, með takkanum á tækinu sjálfu.. Ein sparsöm
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.11.2008 kl. 03:00
Sæll bróðir í (spar-)anda. En tókst þér þá eins og mér að leggja sparnaðinn í banka sem neyddist til að rýja þig 1/3 inneignarinnar? Ég sparaði svo mikið. Kannski hef ég flokkast undir "hásparnað m.v. innkomu (bæturnar)"
Beturvitringur, 25.11.2008 kl. 03:03
Ég eyði öllum sparnaði í vitleysu.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.11.2008 kl. 03:12
Það líkar mér vel JKG, betra að ÞÚ eyðir því í "vitleysu" heldur en að vitleysingar í bönkum láti það eyðast.
Beturvitringur, 25.11.2008 kl. 04:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.