5.3.2008 | 14:32
Ætli ég sé þá ekki bara BLOGGGUNGA
Góðan dag, Guðmundur Hannesson heiti ég, mér sýnist vera að vera loftlaust dekkið hjá þér (vinsamleg ábending)
Gott kvöld, Eiríkur Magnússon heiti ég, mér sýnist hann ætla að fara að rigna (óformleg samskipti og kæruleysisleg yfirlýsing)
Komdu sæl, ég heiti Hreinn Ólafsson, ég get hvergi fundið verðmerkingu á þessu kaffi (fyrirspurn)
Komið þið sæl, Halldór Hannesson heiti ég, ég sé að þið eruð eins og ég að gefa öndunum brauð á þessu fagra kvöldi (vingjarnlegt ávarp)
Góðan dag, Kristján Haraldsson heiti ég, ég held að það vanti 500 kall til baka (vinsamleg ábending á mistök og beiðni um leiðréttingu)
Ekki dytti mér í hug að kynna mig í slíkum eða svipuðum aðstæðum. Það sama á við um bloggið mitt, - annað hvort hefur fólk áhuga á því sem ég segi og skrifa, eða ekki. Án tillits til persónu minnar.
Mín blogg beinast ekki að fólki heldur málefnum sem snerta mig á einhvern hátt. Þess vegna skrifa ég um þau ef vekja mætti viðbrögð og hugsanlega ná fram leiðréttingu eða ábendingum. Bloggið mitt er ekki skrifað með mig í aðalhlutverki, heldur efnistökin.
Stundum þarf ég að nefna dæmi úr fjölskyldunni eða af öðrum vandamönnum og þá vil ég ekki að hægt sé að finna út hvern rætt er um, trú þeirri stefnu minni að blogga ekki um persónugreinanlegan þriðja aðila.
Eitt sinn tók ég t.d. áhættu með því að segja frá afbroti og afbrotamönnum. Ég hefði ekki fyrir mitt litla líf þorað það undir nafni, af ótta við að krimmarnir gætu staðsett okkur og sett mig/okkur í hættu. Frásögnin nýttist vonandi einhverjum almenningi og örugglega lögreglu og tolli.
Gunga? Já, já. Fínt!
Athugasemdir
Magnað. Mér hefur aldrei fundist þú vera nafnlaus. Ég áttaði mig bara á því við lestur þessarrar greinar, en gunga. Nei.
Markús frá Djúpalæk, 5.3.2008 kl. 14:44
Takk Markús, þetta eru ein flottustu meðmæli sem ég hef fengið,
- að þú hafir ekki haft ofarlega í huga að ég væri "huldubloggari" heldur að þér hafi jafnvel stundum fundist ég hafa skrifað áhugavert pistla. (Kýs að túlka það þannig) Takk.
Beturvitringur 5.3.2008 kl. 21:09
Þannig meint, ég hef alltaf yndi af pistlunum þínum.
Markús frá Djúpalæk, 6.3.2008 kl. 12:33
Ágæt Beturvitringur, ég set athugasemdina við þessa nýjustu færslu þína þótt hún eigi betur við í framhaldi af þeirri næstu á undan.
Það sem þú segir þar er það sem ég hugsa í hvert sinn sem ég les persónuleg skrif foreldra um veikindi barna sinna. Eins og þú segir þá þarf að vera á varðbergi gagnvart öfuguggum, (man ekki hvernig þú orðaðir þessa hugsun) en það er fleira sem hangir á þessari spýtu. Foreldar eiga ekki börnin sín í þeirri merkingu að mega ráðstafa þeim eins og eignum sem þau hafa afsal af. Barn sem greinist andlega veikt, hvort heldur það er ofvirkni eða annað, á eftir að verða stór einstaklingur sem fer út í lífið: menntar sig eða ekki en allir leita sér að vinnu og þá er ekki huggulegt að vera með það veganesti á herðunum að foreldrarnir hafi árum eða áratugum áður rakið sjúkdómsferil viðkomandi á opinni bloggsíðu.
Tek undir með þér að ég vildi ekki að foreldrar mínir hefðu talað svona um mig. Um leið legg ég til að foreldrar hugsi sig um áður en þeir gera sér mat úr veikindum barna sinna á miðli sem er opinn öllum heiminum.
Nefródíta 7.3.2008 kl. 00:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.