Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
31.10.2008 | 22:32
Úlfaldi í kvöldmat
... nei honum var ekki BOÐIÐ í kvöldmat, heldur borðaður í kvöldmat (og aftur og aftur og aftur :(
Ég fékk svo uppörvandi og vingjarnlega athugasemd frá góðum bloggvini að nú klessi ég einni færslu í andlitið á ykkur, enda ekki skrifað stafkrók í mánuð.
Svona var athugasemdin: "En hvað í ósköpunum hefur orðið af þér? Það vantar blogg frá þér"
Þetta var allt sem þurfti til að lyfta sjálfstraustinu og framkvæmdaseminni aðeins > > >
Ekki hefur mér hlýnað svo um hjartarætur sem nú :) Einhver SAKNAR mín!!!! Ó, ó, ó mig auma, mín litla sál er sorfin innað ósæð, þar sem hún nú hefur bústað fyrir þína tilstuðlan.
En, svona eftir að skrifað texta sem Shakespeare einn hefði getað þýtt, þá var sú blessun yfir mér að ég hafði borgað stórar fúlgur fyrir utanlandsferð, áður en efnahagsóveðurskýin lögðust yfir láð og lög. Jóhanna Kristjónsdóttir, sem leiddi okkur til Útlandsins, var búin að fá næstum allt borgað frá okkur (23 manns), e-ð hafði vantað, Spron hljóp undir bagga í viku eða tvær. Allt greitt í topp áður en fjandinn varð laus.
Er því að KOMA FRÁ LYBIU. Öllum leið hálfilla fyrst. Svo var samið um að allir mættu tjá sig ef hrollurinn yrði yfirþyrmandi..... en ekki velta sér uppúr þessu. Svo var lagt í'ann suður eftir til Sahara.
Verð að þakka það og lofa að flest slæmt gleymdist þegar við þeystumst yfir sandöldur og -víðáttur og svo sofnaði ég þar á dýnu undir stjörnubjörtum Sahara-himninum inni á milli (sand-) fjallanna og hafði horft uppí stjörnuhvolfið a.m.k. 360° !!! Eftir +30°C heitan daginn var reyndar andsk... hrollkalt um nóttina þegar andinn fór í +4°C.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.10.2008 | 05:33
Þeir vita það allir - m.a.s. bandaríski Búskurinn
Geðlyf hljóta nú að fara að seljast sem aldrei fyrr. Flestir að fara á taugum yfir fréttum og hrakspám. SVO HEYRIST Í LANDSINS FEÐRUM (og mæðrum?) Noh, nú ætla þeir að gera skurk!
Nú veit maður að allir kunna lausn efnahagsvandanum!! Jésss. Stuna. Andvarp... Þvílíkur léttir. Ekki kann ég neina lausn. Gott að hafa fræðinga, ráðgjafa og yfirvöld sem vita hvað gera skuli.
Ég heyri
ráðherra,
almenna þingmenn (stjórnar- og stjórnarandstöðu-),
ráðuneytisstjóra,
ráðgjafa,
stjórnmálafræðinga,
hagfræðinga,
forstjóra og
stjórnarformenn fjármálastofnana,
hagstofnun,
kauphallarmenn,
seðlabankastjóra,
viðskiptajöfra og
ég kann ekki fleiri titla og biðst velvirðingar ef einhverjar rangfærslur komu fram. Hvað með það, allir ofangreindir og fleiri til, hafa opinberað FULLKOMNA KUNNÁTTU SÍNA um hvað beri að gera til að reisa efnahagslífið við. Þetta hef ég hlustað á undanfarið. ÞÁ VITUM VIÐ ÞAÐ.
Það verður að draga úr verðbólgu
Vextir verða að lækka
Stýrivextir verða að vera raunsannir
Verðum á ná jafnvægi
Verðum að koma markaðnum í gang
Verðum að leggja okkur fram
Verðum að tala í lausnum
Verðum að ná verðbólgu niður
Verðum að vinna saman
Verðum að ræða ástandið
Þurfum víðtæka samstöðu
Verðum að knýja fram aukinn hagvöxt
Atvinnuþróun má ekki stöðvast
Það verður að grípa til aðgerða
Verður að styrkja gengi krónunnar
Verður að stefna að uppbyggingu
Verðum að vinna traust á Íslandi
Þurfum að vera samkeppnishæf og
Verðum að standast samkeppni
AÐGERÐALEYSI ER EKKI VALKOSTUR.
OG?
Er eitthvert okkar sem vissi þetta ekki? Megum við ekki ætlast til að valdir leiðtogar, embættismenn og ráðgjafar geri annað og meira en að segja okkur hvað sé að?
Værum við ánægð með lækni sem lýsti fyrir okkur þeim kvillum sem okkur hrjáðu og sendu okkur svo út' Ætluðumst við ekki til að hann reyndi einhvers konar meðferð við sjúkleikanum?
Ástandið síast inní alla, hvort sem þeir skilja eður ei. Lítil frænka mín (nýlega 4ára) spurði mig á dögunum: "Eru bankarnir sterkir?" Geri ráð fyrir að hún hafi heyrt þetta útundan sér og sennilega velt því fyrir sér hvort þeir hefðu krafta í kögglum.
Nú eru þeir lánlausu, lánsamir!
Eignalausir lífeyrisþegar hafa engu að tapa!?