Mótmælendur O G skríll (ath! ekki "eða")

Það er alveg sjálfsagt og réttmætt að mótmæla því sem manni þykir óhæfa.

Margir lögðu leið sína á fundarpalla Ráðhússins en það var allmislitur hópur. Suma mætti nánast kalla leigumótmælendur (ekki "atvinnu-", fengu vísast engin laun önnur en útrásina). 

Það má samt EKKI gleyma því að þarna var hópur siðaðs fólks sem kominn var til að fylgjast með, og/eða mótmæla nýju stjórninni. Þessi hluti lét að engu óðslega og sumir sögðust hafa fyrirvarið sig fyrir að hafa hugsanlega verið álitnir sem hluti skrílslátahópsins


SKILDI bara ég SPAUGSTOFUNA?

Eða skildu hana allir nema ég? 

Semja eða segja frá. Háttur SpSt er að taka upp allskyns málefni og snúa þeim, ef þannig stendur til, upp á andsk....  Man ekki að þeir hafi beint búið til atburði. Skrumskælt þá. Já, já, já og margtogað í brosvöðvana.

Mér heyrist að mörgum hafi þótt Spst fara "illa að ráði sínu" og "lagst lágt", "farið yfir mörkin" og þaðan af verra.

Meðan á þættinum stóð hugsaði ég oft: "Gott hjá þeim, já, helv... er þetta gott á þau."

Nú stend ég frammi fyrir því að  vita ekki hvort ég hvatti rétt lið. (sbr. hér að ofan: "þau")

Ég skildi sneiðina þannig að Spaugstofumenn væru að sýna okkur fram á þá fáránlegu ímynd sem verið hefur reynt að koma inní hausinn á okkur um ÓFM

Mér er fjandans saman hvort ÓFM þjáðist af þrálátri berkjubólgu eða þunglyndi. Ef hann hefur náð heilsu er það þá bara ekki fínt?

Hafi hann verið með berkjubólgu hefði mér fundist sjálfsagt að mótmælendur á pöllunum heltu yfir hann klakavatni og tækju hitann af, ef vera kynni að þeim tækist nú að láta honum slá niður.

 


Þrældómur út yfir gröf og dauða... og fleira

Sumt séð og sumu skotið að mér frá bloggvinum og fleirum

"Fokhelt hús fauk á Suðureyri"

"Lenti í átökum við Reykjavíkurapótek"

Maður nokkur var að lýsa því þegar Bobby Fischer þáði boð á heimili hans og komst þannig að orði: ..."þegar hann kom inn úr þröskuldinum"... (Vikulokin í dag á Rás 1).

Auglýsing í blaði: "Lærið söng"

Fyrirsögn: "LÁTNIR ÞVO BÍLA Á NÓTTUNNI"

Frásögn í útvarpi: "Slökkvistarfið gekk vel, allt brann sem brunnið gat"

Nefródíta sendi mér frábæra athugasemd sem ég hafði ekki pælt í: **********

Sumir vilja "jafna launabilið", aðrir vilja "auka jafnréttið" Hvar er fólkið sem einfaldlega vill "jafnrétti"?

"Jafna launabilið"?! Ég kann íslensku ekki nógu vel til að vita hvað þetta getur hugsanlega átt að þýða. ***************** Nefródíta hugsar :)

"Það er ekki vitað, svo vitað sé"


NÁMSKEIÐ sem ná EKKI til þeirra sem helst þurfa

Ég er að hlusta á Útvarp Sögu, þátt í umsjón Markúsar Þ Þórhallssonar. Fjallað er um ýmis námskeið.

Oft hef ég hugsað og talað um afkvæmanámskeið, líkt og MÞÞ spurði um. Við þurfum kennslu t.d. ef við kaupum okkur hljóðfæri, jafnvel myndavél. Okkur þykir líka sjálfsagt að fara með litla sæta hundinn okkar á hlýðninámskeið. Það þarf að læra að hvetja, umbuna, skilyrða jákvætt, setja mörk og allt það.

Hvað með börnin og unglingana okkar? Eigum við bara að láta skeika á sköpuðu? Er það enn einu sinni "þetta reddast" aðferðin?

Vandamál ungmenna sýna að sú aðferð gengur ekki alltaf. Það er enginn vandi að skaða/eyðileggja barn og framtíð þess. Ofbeldi í algengustu merkingu þess orðs er annar kapítuli, - en andleysi, afskiptaleysi, vantraust, skortur á hvatningu og hrósi eykur allt líkurnar á því að barnið fari inná "ranga braut"

Ekki meira um þetta að sinni, en góðra gjalda verð námskeið eru bara ekki sótt af þeim foreldrum (fólki) sem helst þyrftu.

Margoft hef ég setið námskeið og glaðst yfir áhuga og innleggi þátttakenda og hugsað - hvar er fólkið sem ætti að vera hér?

Vímuefnafíklar eru ólíklegir til að sækja námskeið um vímuvarnir.  Foreldrar sem einkennast af afskipta- og sinnuleysi, skrá sig ekki og borga sig inná uppeldisnámskeið.

Hvað er hægt að gera?


Laugavegur 4 og 6 - Fjallkonan með sílíkonbrjóstin

Þótt takist að koma í veg fyrir að 101 Reykjavík líti, áður en langt um líður, út eins og lofttæmd og sótthreinsuð geymsla fyrir andlausa "coma"búana, er það ekki alveg nóg. 

Ég er svo forpokuð að þegar ég sé vel og fallega uppgerð hús sem fyllilega eru nýtt, - sem heimili, verslanir eða fyrir annars konar starfsemi, slær nálykt (lærði þessa málnotkun af menntamanni) fyrir vit mér að sjá merkingar á sumum þeirra.

Hugsum okkur sjónlínu eftir Laugavegi t.d. frá Lækjargötu að Snorrabraut: Falleg, gömul, vel viðgerð og vel viðhaldin hús. Franskir gluggar og útskornir gluggakarmar að upprunalegri mynd komnir í stað starandi augnatóftanna.

Hvað svo? Á Laugavegi 4 gæti t.d. staðið

"Tattoo Parlor", "Flop Shop", "Totally Lust", "Cute Princess". 

Næsta hús gæti svo t.d. borið:

"Gekt Hot", "Fucking Cool", "Catch Up", "No Shit",

Svo auðvitað til minningar um gamla verslun ofarlega á Laugaveginum: "The Coats' and Ladies' Shop" og "Textil and Yarn"

Nei, bra sei sona.


Í skóla þjóðernissinna og þjóðernisstefnu fylgt

Eftir liðskönnun og heilsufarsyfirlit var fyrsta verkefni stjórnenda að afhenda okkur spjald með reglum þeim er halda bæri innan OG utan skólans. Mig minnir að þær hafi verið tíu talsins (maður gleymir ýmsu á 44 árum).

Að sama skapi minnir mig að fyrsta reglan hafi verið: "Vernda skaltu tungu þína og þjóðerni". Það fengi nú einhver hland fyrir hjartað nú á dögum.

Frá fyrstu tíð hefur íslenska verið mitt áhugamál. Í skólanum varð ég fyrir miklum áhrifum og styrkti enn frekar þetta eftirlætisáhugamál mitt og gerði mig að þeim málfarsfasista sem ég er orðin. Að sjálfsögðu hef ég skoðað fleiri tungur Tounge, en einungis reynt að vernda þá íslensku.

Á sama hátt og mér finnst að eigi að vernda hús og margskonar minjar sem gegna hlutverki "myndaalbúms" sögunnar, finnst mér tungumálið eigi að vernda sem best. Ekki dugar að halda einu og einu húsi við og vernda. Það væri eins og að setja eina og eina gulltönn upp í tannlausa manneskju. Ekki er heldur til mikils að flytja þessar minjar, það væri eins og að setja gulltennurnar í krukku og geyma á safni.

En það ætti ekki síður að vera kappsmál að vernda tunguna okkar. Þess vegna er mér svo umhugað að benda á það sem virðist vera mjög smitandi í málfari okkar.

Nokkur dæmi:

Fólk spáir í því? Það á að spá í ÞAÐ. Aftur á móti pælir maður í áhugamálinu (örugglega víxlum)

Fólk heimsækir fólk á sjúkrabeðið. Beð í hvorugkyni er t.d. blómabeð. Dauðvona maður liggur á dánarbeðnum(kk. beður)

Sumir eru ginkeyptir fyrir e-u. Ef ekki er átt við drykkinn Gin, þá segir maður ginnkeyptur.

Hjá sumum hleypur snuðra á þráðinn. Að snuðra er að leita uppi, þvælast í forvitni. Snurða er aftur á móti snúður eða hnökri á bandi.

Svo hellast margir íþróttamenn úr lestinni, blautir hljóta þeir að vera. Að heltast úr lestinni þýðir aftur á móti að verða haltur og geta ekki fylgt hópnum (lestinni)

Orðinn of stór skammtur að sinni. Biðst velvirðingar.

 


LÍFEYRISÞEGAR ekki endilega VERST SETTIR

Ekki er sama hver lífeyrisþeginn er. Sumir eru eignamenn og geta nýtt eignir sínar þegar í harðbakkann slær. Það á við um ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og hugsanlega fleiri sem ég ekki kann að nefna.

Lífeyrisþegar eru misjafnlega á sig komnir; sumar illa farnir og sumir hreint ósjálfbjarga. En það eru líka margir sem komast ágætlega af, með guðs hjálp og góðra manna.

Sárust eru kjör fólks sem er á vinnumarkaði á afspyrnulélegum launum og hefur það virkilega skítt. Eins og í öðrum hópur er það fólk með börn á framfæri sínu.

Skoðum dæmi af sæmilega höldnum lífeyrisþega annars vegar og láglaunamanni hins vegar. Hefðu þeir sömu mánaðartekjur (m.t.t. ívilnana, bóta o.þ.u.l.) þá hallar nú heldur betur á þann sem mætir daglega til vinnu.

Berum saman: Láglaunamaðurinn sem telst heill heilsu og er ekki kominn á ellilífeyrisaldur hann fær ekki sömu viðurgjörðir og lífeyrisþeginn:

Hann fær ekki afslátt við lyfjakaup

Hann fær ekki afslátt innan heilbrigðiskerfisins

Hann fær ekki afslátt af strætófargjöldum

Hann fær ekki ókeypis í sundlaugar

Hann fær ekki afsláttarkort vegna læknisheimsókna við jafn lága upphæð og lífeyrisþeginn

Hann fær ekki afslátt vegna gleraugnakaupa (suma fyrirtæki)

Hann fær ekki afslátt vegna ýmissar þjónustu (sum fyrirtæki)

Hann fær ekki styrk til bensínkaupa

Hann fær ekki niðurfelldan bifreiðaskatt

Hann fær ekki afslátt af fasteignaskatti

Hann fær ekki endurgreiddan hluta tannlækniskostnaðar(ákv. verk)

en

Hann verður að eiga eina og helst tvær bíldruslur

Hann verður e.t.v. að eyða meiru í fatnað (til að geta látið sjá sig í vinnunni)

Hann þarf að kaupa strætókort ef hann á ekki bíl (annars umtalsverður bensínkostnaður)

Hann þarf að greiða að fullu fyrir barnagæslu

Hann þarf að verja lengri tíma fjarri börnum sínum (fjölskyldu)

Hann þarf sennilega að kaupa dýrara fæði (minni tími aflögu til búkonusparnaðar)

Hann þarf að eyða tíma, bensíni og öðrum bifreiðakostnaði til og frá vinnu

 

Ég tilheyri fyrri hópnum; hamingjusamur 25% yrki á launum hjá ríkinu. (Bara svo e-r haldi ekki að hvötin til skrifanna sé öfund. Það er enginn umræddra hópa öfundsverður).


Meðferð KVÓTANS e-s staðar í ferlinu skilgreind sem ÞJÓFNAÐUR?

... stuldur, rán eða ólögleg yfirtaka? Ef svo er/væri, yrði viðsnúningurinn einfaldur.

Kaupi maður illa fengna vöru, má gera hana upptæka án nokkurra bóta. Það á líka við þótt varan sé keypt/fengin í góðri trú um að allt sé löglegt.

Við gætum keypt fínan flatskjá á góðu verði. Komist svo upp um þjófnaðinn og þýfið megi rekja til okkar, - værs'go = =  UPPHAFLEGA EIGANDANUM er skilað því sem honum ber.

E.S. Af hverju notum við ekki

"kvóti" (e. quota) þegar við eigum við "hluta", "skerf" eða "skammt"

og

"kódi" / "kóði" (e. code)  þegar við eigum við "dulmál", "dulmálslykil", "táknróf", "merkjamál"

Kannski heyri ég illa en mér heyrist þeir sem fjalla um kvótann; þingmenn, sjómenn o.s.frv. tala um "kóda" en kannski eru þeir linmæltir þegar þeir segja "kóti".

 


Öryrkjar hvað? - Hálffullir eða ...?

ÖRyrki, yrki, smávirki, aðeinsvirki, varlavirki, ofvirki. 

Nú fer örugglega (vonandi) einhver í fýlu og finnst ég vera óforskammaður. 

Þetta með gömlu útslitnu viðhorfslíkinguna um hálffulla/hálftóma glasið ætti að eiga við þá sem ekki geta stundað vinnu vegna fötlunar, sjúkdóma eða annars sem aftra kann.

Hvað með manneskju sem telst 50% öryrki, er hún ekki 50% vinnufær? Sem betur fer hefur þetta aðeins komið til umfjöllunar; að meta getu í stað getuleysis. Sumir segjast vera 25% yrkjar en séu að öðru leyti á launum hjá ríkinu! Nú, og hvað gerirðu?

Það er að bera í bakkafullan lækinn að minnast enn einu sinni á þá undarlegu skipan að öryrkjar geti ekki bætt fjárhag sinn með því að vinna eitthvað smávegis, eftir getu.

Nokkrum skjólstæðingum vann ég með. Þeir þjáðust af geðheilsuleysi, ég af annars (aðallega) konar heilsuveilu.  Launagreiðendur gerðu allt fyrir mig til að lyfta laununum mínum eins og leyfilegt var. Eftir ánægjuleg samskipti við "geðsjúklingana mína" sem var samt stundum svolítið erfitt fyrir skrokkinn á mér, kom niðurstaðan. Tryggingastofnun, ekki af fjandsemi heldur skv. lögum lét mig endurgreiða bróðurpartinn af launum mínum hjá félagsþjónustu tveggja sveitarfélaga. Held ég hafi haft u.þ.b. 200 krónur á tímann þegar upp var staðið.

Það vantar alltaf fólk í slík störf og gott fyrir þá sem ekki geta unnið fulla vinnu að komast í svona hlutastörf.  Ég var eiginlega með svolítið samviskubit þegar ég var ítrekað beðinn að taka að mér fleiri en varð að svara:  "Mér leið vel í þessu starfi, en þegar það er að mestu kauplaust, kýs ég frekar að stunda sjálfboðavinnu".  Fór svo á námskeið fyrir sjálfboðaliða.


Missti aleiguna! - Bankarnir miskunnarlausir!

Ungur maður festi kaup á íbúð, ekkert mjög stórri en snoturri þó. Hann var heppinn og lánsmöguleikar góðir. Bankar buðu há lán á þessum tíma svo hann hrósaði happi yfir að hafa fengið 90% lán.

Hann var búinn að vera það lengi á vinnumarkaði að hann átti rétt á lífeyrissjóðsláni. Það var hærra en sem nam þeim 10% sem á vantaði til kaupanna svo hann endurnýjaði bílinn. Hann orðinn meira en þriggja ára og hætta á bilunum, afföll mikil og endursala erfiðari á eldri bílum.

Ótrúlegt hvað eldavélar, viftur, uppþvottavélar, flott blöndunartæki, þvottavélar, þurrkarar, ljós, gólfefni, sjónvörp, videotæki, dvd-spilarar, hljómflutningstæki, tölvur, prentarar, stafrænar myndavélar, upptökuvélar, minniskubbar, auka harðir diskar, brauðristar, kaffivélar, djúpsteikingarpottar, straujárn, hárblásarar, vatn-og-vellíðan vatnsnuddhausar, heitur pottur, græjur fyrir pottinn, pallur, bygging yfir sólhornið, litmyndadyrasími, bensín, dekk, álfelgur, viðgerðir, bifreiðaskattur, bílatryggingar og svo heimilistryggingar fyrir allt góssið, geta verið dýrar.

Þetta gekk prýðilega lengi vel, kunningjarnir litu öfundaraugum á þennan gaur sem var búinn að koma sér svo asskolli vel fyrir, - hlyti að hafa flott laun 'mar'.

Svo fór skipulagningin aðeins úr skorðum þegar ekki varð þverfótað fyrir innheimtuseðlum vegna allra "auðæfanna" sem hann hafði plantað í íbúðinni. Þá var ekki til fyrir afborgunum af íbúðarláninu, það fór stundum í vanskil. Stundum þurfti að "fara aðeins" í yfirdráttinn.

Sagan er orðin nógu löng til skýringa. Innan skamms var þessi maður á götunni. Bankinn og aðrir lánveitendur létu sér ekki lynda viðskiptin og drógu í land.

Hann var orðinn eignalaus. HANN MISSTI ALEIGUNA í viðskiptum sínum við bankana.

Það gleymdist að segja frá því í upphafi að náunginn átti ekkert sparifé annað en tæpan hundraðþúsundkall á launareikningnum. Jú, hann missti það, - það var líka aleigan!!

Sem sagt þessir viðbjóðslegu bankar með óþrjótandi lánagleði RÆNDU HANN ALEIGUNNI GetLost


Skelfilegt að missa aleiguna, bankarnir banka á dyr

Ungur maður festi kaup á íbúð, ekkert mjög stórri en snoturri þó. Hann var heppinn og lánsmöguleikar góðir. Bankar buðu há lán á þessum tíma svo hann hrósaði happi yfir að hafa fengið 90% lán.

Hann var búinn að vera það lengi á vinnumarkaði að hann átti rétt á lífeyrissjóðsláni. Það var hærra en sem nam þeim 10% sem á vantaði til kaupanna svo hann endurnýjaði bílinn. Hann orðinn meira en þriggja ára og hætta á bilunum, afföll mikil og endursala erfiðari á eldri bílum.

Ótrúlegt hvað eldavélar, viftur, uppþvottavélar, flott blöndunartæki, þvottavélar, þurrkarar, ljós, gólfefni, sjónvörp, videotæki, dvd-spilarar, hljómflutningstæki, tölvur, prentarar, stafrænar myndavélar, upptökuvélar, minniskubbar, auka harðir diskar, brauðristar, kaffivélar, djúpsteikingarpottar, straujárn, hárblásarar, vatn-og-vellíðan vatnsnuddhausar, heitur pottur, græjur fyrir pottinn, pallur, bygging yfir sólhornið, litmyndadyrasími, bensín, dekk, álfelgur, viðgerðir, bifreiðaskattur, bílatryggingar og svo heimilistryggingar fyrir allt góssið, geta verið dýrar.

Þetta gekk prýðilega lengi vel, kunningjarnir litu öfundaraugum á þennan gaur sem var búinn að koma sér svo asskolli vel fyrir, - hlyti að hafa flott laun 'mar'.

Svo fór skipulagningin aðeins úr skorðum þegar ekki varð þverfótað fyrir innheimtuseðlum vegna allra "auðæfanna" sem hann hafði plantað í íbúðinni. Þá var ekki til fyrir afborgunum af íbúðarláninu, það fór stundum í vanskil. Stundum þurfti að "fara aðeins" í yfirdráttinn.

Sagan er orðin nógu löng til skýringa. Innan skamms var þessi maður á götunni. Bankinn og aðrir lánveitendur létu sér ekki lynda viðskiptin og drógu í land.

Hann var orðinn eignalaus. HANN MISSTI ALEIGUNA í viðskiptum sínum við bankana.

Það gleymdist að segja frá því í upphafi að náunginn átti ekkert sparifé annað en tæpan hundraðþúsundkall á launareikningnum. Jú, hann missti það, - það var líka aleigan!!

Sem sagt þessir viðbjóðslegu bankar með óþrjótandi lánagleði RÆNDU HANN ALEIGUNNI GetLost

 


Raunamæddir rassar og hrumir og hryggir hryggir

Það hljóta að vera góðar og gildar ástæður fyrir því að fjarlægt hefur verið flestallt sem

setjst mátti á í Smáralindinni.

Bekkir ekki lengur hjá lyftum og annars staðar þar sem maður gat tyllt sér aðeins.

Ég á ekkert alltaf sérstaklega auðvelt með gang og kyrrstöður engu betur. Það fyrsta sem ég geri í þessum fjölverslanaljónagryfjum er að ná mér í gott eintak af innkaupakerru og nota hana sem göngugrind og fatakerru (alltaf svo heitt þegar maður kemur inn að fljótlega er maður orðinn ber að ofan og á brókinni einni fata, næstum)

Vissulega eru fínir leðurlegir sófar og það er fínt, en þeir eru bara svo fáir og langt í þá (ef maður er langt frá þeim! djúpt)

Þeir sem reyna að drösla mér með sér í þeytivindur eins og Smáralind og týna mér, vita mig er sennilegast að finna í skóbúð (mátunarstólar) eða á klósettinu ef ekki býðst annað.

Um Kringluna verður samt að segja að síðast þegar ég var þar, var nóg um sæti og bekki. Þar get ég "trítlað" (kannski öfugmæli?) um og hvílt mig til skiptis.

Af hverju ætli Lindin hafi séð sig tilneydda til að fjarlægja flest sæti. Skemmdir? Hópamyndun? Kannski. Mætti þá kannski hafa trébekki/stóla svo það yrði ekki það þægilegt að fólk héldi þar til.

Í sjálfum verslununum má maður þakka fyrir ef það er búðarborð sem maður getur stutt sig við, EN stöku búð finnur stól þegar maður biður um það.  Svo fer ég með inní mátunarklefa ef félagi minn fær að máta.

Höfuð - herðar - hné og tær


D ó p i ð INN - D ó t i ð ÚT

Að vonum gleðjumst við yfir gífurlega góðum árangri toll- og löggæslu, en á hverju ári tekst að hindra að fíkniefni komist á “markað” þ.e.a.s. að þau nái til ungmennanna okkar. Fylgst er með komu skipa og flugvéla svo alltaf næst einhver hluti þess sem reynt er að smygla. Sumum finnst það sem næst að stöðva vera dropi í hafið, en hafið er nú einu sinni samansafn dropa. Ég velti fyrir mér hvort eins vel sé gætt að SKIPAFERÐUM FRÁ LANDINU. Hér eru hópar sem ráðast inn hjá saklausu fólki og ræna það og rupla. Í allflestum tilvikum fer góssið innan tveggja sólarhringa í gám og svo um borð í skip sem er á leið til útlanda. Í millitíðinni fer fram vandleg skipulagning. Þýfið er flokkað og stundum merkt og dreift í nokkur “vöruhús”. Þar eru gámar fylltir og mörg ríkisstyrkt stofnunin gæti verið stolt af skipulagningunni. Nú kann það að vera að með skipalestun sé strangt eftirlit. Það er jafn nauðsynlegt. Sé fíkniefnasölum gert ófært að koma þýfi í verð, til að borga næstu sendingu, gætu heimilismunir e.t.v. fengið að vera þar sem þeir eiga heima.  Ég hugsa e.t.v. ekki allt til enda, því ekki er hægt að ímynda sér hvað kæmi í staðinn. * * * * * Helst vil ég að því verði komið á að í fjölmiðlum verði talað um hve marga efnin hefðu getað lagt að velli, þegar fjallað er um magnið. Ekki áætlað “götuverð”.  Segja mætti að:  “tuttuguogþrjúþúsund manns hefðu komist í vímu og rýrt andlegt atgervi sitt með þeim skammti sem lagt var hald á”   

Ha? RÍÐUR SÉR TIL RÚMS! Hver? Er klæmst í útvarpinu?

Þegar ég hlusta á útvarp fer margt af stað í mínum "BesserWisser" heila.

Stundum garga ég á hálfvitana (en bara ef það er fólk sem hefur atvinnu af því að tala) Stundum hlæ ég dátt og skyndilega. Til tilbreytingar þá rek ég upp hlátur, hlæ svo dátt meðan ég úthúða hálfvitunum - allt gert án áheyrenda.

Eitt sinn sagði íþróttafréttamaður (þeir eru víst frægir fyrir málnotkun - og það ekki fyrir gullaldarmálfar) að alltaf væru að bætast við "nýjar" íþróttagreinar; nú væri fólk farið að renna sér á skíðum þótt ekki væri snjórinn (nokkurs konar rúlluskíði) "Allt er nú til" sagði viðmælandinn. "Já, þessi íþrótt hefur riðið sér til rúms undanfarið"

hm? ég ætla ekki að setja inn leiðréttingu.  Vonum svo innilega að þetta hafi verið freudísk tungufella.


Farið hefur ... ......

Sigursteinn segir af sér   Whistling

Hjaaaaáááálllllph - hilfe - hjælp - ayuda - help Alvarleg þráhyggja

  -  The Groove Tube   -IMBAKASSINN 

Búin að hugsa öðru hverju um bíómynd sem ég sá eitthvað um 1970. "The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn)

Ein skorpa fór í það að fara á allar "góðu" videoleigurnar, án árangurs. "The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn)

Svo gerðist ég ebay-fíkill (aðallega kannski túramaður) og viti menn, ég fann fjölda eintaka af þessari mynd "The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn). Ég bauð í, "vann" "The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn) og var komin að því að borga "The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn) þegar ég komst að því að það væru mismunandi 'regions' (US og Can, Region 1 - Evrópa, Region 2, o.s.frv.) Fékk að hætta við.  Leitaði þá dauðaleit í Bretlandsdeildinni: ebay UK að "The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn). Ekkert þar að finna.

Ef einhver veit hvar þessa mynd "The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn) er að finna, á dvd eða video, viltu þá láta mig vita og ef þú átt hana sjálfur, skal ég borga gott leigugjald ef þú þyrðir að lána mér hana.

Um 1970 var ég tvítug og sá þessa mynd"The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn) með systur minni sem þá var 41 árs. Nú þegar ég er orðin 57 ára og hún 78 ára, langar okkur svo að endurupplifa grínið, þótt við gerum alveg ráð fyrir því að við gætum orðið fyrir vonbrigðum með: "The Groove Tube" (ísl: Imbakassinn)

 


Enginn KEPPUR, LAKI né VINSTUR, bara VÖMB, samt jórtrum við

Hvorki útlenska né vitleysa. Aðallega óþarfa málalengingar og stundum allfyndnar.

Þessar setningar hef ég ýmist lesið eða heyrt.  Strika undir það sem mér þætti mega seppa:

... þeir voru báðir sammála.

... gyllitilboð (annaðhvort tilboð eða gylliboð)

... það er fínt veður úti (önnur saga inni hjá mér) 

... það er ströng gæsla á landamærum beggja landanna (löndin liggja saman)

... hjá einstaklingum og einnig í fyrirtækjum líka  (annaðhvort einnig eða líka)

... þátturinn verður endurfluttur aftur klukkan... (annaðhvort endurfluttur eða fluttur aftur,  nema hann hafi verið fluttur a.m.k. tvisvar áður, þá yrði hann að sjálfsögðu endurfluttur aftur)

... allir gírarnir voru fastir og óvirkir, svo við þurftum að bakka afturábak upp alla brekkuna

 

Svo það sem flestallir nota. Þingmenn/ráðamenn, aðrir stjórnendur, skammskóla- og langskólamenntaðir og óvenjugreind gæludýr:

... Þessi ákvörðun kann að hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér  (annaðhvort gæti það haft alvarlegar afleiðingar EÐA deyfða siðferðisvitund í för með sér)


LSD, STP, LBJ, DNA. USA = BNA. ríki eða fylki

Nú verður Beturvitringur að brjóta odd af oflæti sínu og fá botn í þetta mál með hjálp annarra.

USA vitum við að stendur fyrir "United States of America". Á íslensku er þar með skammstöfunin BNA fyrir Bandaríki NorðurAmeríku (veit ekki einu sinni hvernig á að setja þetta upp á íslensku).

Hvernig má það þá vera að í langflestum tilvikum er talað um hitt eða þetta fylkið í Bandaríkjunum?  Ekki eru þetta Bandafylki Ameríku. Kappið milli forsetaslagsframbjóðendanna fer fram í Iowa-fylki, nú eða þeir sleppa að taka þátt í þeim fylkjum sem þeim finnst ekki vert að eyða púðri í.

New York-borg er í New York-ríki, en oftast er talað um New York fylki.

Styðjið mig nú til sjálfsbjargar (svo ég geti haldið áfram að nöldra í öðrum Devil)

Ef þetta eru ranghugmyndir mínar þá verð ég að snúa mig einhvern veginn út úr því, annars getum við ráðist á fleira fjölmiðlafólk, og reyni þeir bara að snúa sig út úr því.

Meira síðar.... ekki nærri búin


Að VERA .... eða að VERA að VERA (ekki) ..!?

Kæru málnotendur - Don Kíkódi hélt úti sínu einkastríð og barðist lengi vel - án mikils árangurs.  Ég leita að bandamönnum í varnarlið. Það eru einhverjir tilbúnir í slaginn, en ég veit bara ekki hvar þá er að finna og enginn gerir byltingu einsamall.

   Þessi íslenska þýðing á enskri málnotkun hefur breiðst út eins og fnykur. Það mætti fækka um mörg orð i greinum og töluðu máli ef notuð væri "gamla" íslenskan. Þetta fer alveg öfugt ofaní mig og marga sem ég þekki. Ég hlusta mjög mikið á útvarp, svo oft gapi ég, hósta og svelgist á þegar ég heyri ambögurnar sem smokrast út úr fólki. Einum fjölmiðlamanni man ég eftir í svipinn sem ekki er dottinn í'ða; Þórhallsson á Útvarpi Sögu (leitt að muna ekki í bili hvað hann heitir) Arnþrúður var lengst af í náðinni (hjá mér) Grin  en nú virðist henni vera að elna sóttin. Það þyrfti bara að lyfta henni aftur upp á teinana, hún kann þetta allt; þau þrjú, Karlsdóttir, Þórhallsson og Tómasson eru öll mjög vel máli farin og kunna þetta vel. Mér heyrist bara að smitið sé komið í vitin á þeim.  

“Þeir voru að græða gífurlega á síðasta ári!”                  Þeir græddu gífurlega á síðasta ári.

“Þau voru ekkert að skilja kennarann”                          Þau skildu ekki kennarann.

“Menn eru ekkert að kynna sér skilmálana”                   Menn kynna sér ekki skilmálana.

“Hann er að fara til útlanda þrisvar á ári”                        Hann fer til útlanda þrisvar á ári.

“Menn eru að tryggja sig fyrir svona ferðir”                    Menn tryggja sig fyrir svona ferðir.

“Ég er að gera ráð fyrir auknum vindhraða”                   Ég geri ráð fyrir auknum vindhraða.

"Þeir voru ekkert að tíma að kaupa þetta" (*)                Þeir tímdu ekkert að kaupa þetta

(*) heyrt 8.1.08 í útvarpi (viðmælandi, EKKI þáttagerðarmaður)

Beturvitringur


ER GAMLA FÓLKIÐ AÐ LÁTAST?

Skrifað stóð í dagblaði að gamalt fólk væri að látast, án þess að nokkur vissi það fyrr en löngu síðar. 

Af hverju er það að látast úr því enginn er til þess að blekkja? Er það að látast vera sjúklingar kannski?  Nei, blessaður ritarinn átti við að einstaklingar dæju heima hjá sér án þess að nokkur frétti af því fyrr en löngu síðar.

 GÁFUMENN OG AÐRIR MENN

Getur verið að maður virðist klárari ef notuð er útlenska sem bleytt hefur verið í, hún sett í miðflóttaaflsþeyti, svo toguð upp, hrist og loks notuð sem íslenska?   ....

DULRÆNT MENNI sagði í útvarpi í gær:  “Fyrir nokkru hafði ég draum”.  Kannski er hann fjarskyldur M.L. King og hefur gleymt sér augnablik, - að venjan sé að segja að mann hafi dreymt.  Sú afsökun slappaðist þegar hann kvaddi með: “Eigðu góðan dag”. Það var örugglega vel meint hjá honum eins og búðarmanninum sem þakkaði mér í dag fyrir viðskiptin og kvaddi: “Hafðu góðan dag”.  Kvikindislega brosti ég og sagði” “Já, sömuleiðis, hafðu það gott”.  Mér finnst ég alltaf mest elskuleg þegar ég kveð og segi:  “Gangi þér vel” . “Hafðu það gott” finnst mér líka vingjarnlegt.

Nú er komið að játningu:  Ég segi oft "ókei" og heilsa oft, sérstaklega yngri kynslóðinni, með: “Hæ”.

En út fyrir mínar varir fer aldrei “bæ” nema þá að ég sé þá bara að fara niður í bæ.

Uns síðar...

Kveðja,

Beturvitringur

7.janúar 2008

Málþroski menntamanna og annarra kvenmanna og karlmanna

Það er sama hvort það eru unglingar, afgreiðslufólk, dálkahöfundar, fréttaritarar, -menn, þáttagerðarmenn, opinberir embættismenn (já, já, þingmenn, ráðherrar - og já, m.a.s. menntamálaráðherra) eða leikskólakrakkar... of margir éta upp erlendar setningamyndir, gleypa þær hráar og gubba þeim svo á samferðafólkið. 

Sá hópur sem talar helst íslenskuna, eru þeir sem eldri eru og viti menn... útlendingar! sem hafa lagt sig eftir að læra málið vel. Það kann vel að heyrast hreimur en dásamlegt að heyra þessar "aumu útlendingalufsur" nota eignarfall, viðtengingarhátt og íslenska setningagerð.  Skítt með eina og eina vitlausa beygingu, þrátt fyrir þær eru þeir oft betri en innfæddir.  Hitt er orðið verra þegar ég og þjáningasystkin mín (sem vilja að íslenskan haldi heilsu) erum farin að heiladofna og grípa til sumra vitleysanna óafvitandi.

Fyrst heyrðust vitleysurnar frá unglingum (tók fyrst eftir: "Ég er bara ekki að skilja þetta" árið 2000), svo eldra fólki.  Loks breiddist plágan yfir söfnuðinn eins og skítalykt í mátulegum vindstyrk.

Við vinfrænkur sem deilum þessum áhuga og væntumþykju um "þjóð og tungu" Smile  köllum þessar "virku kynslóðir" sem heyrist mest í - og frá:  "ÉG-ER-EKKI-AÐ-SKILJA-ÞETTA-KYNSLÓÐINA!" Devil

Ég ætla að prófa þessa ritskjóðu og gá hvort samferðafólk mitt fær ekki aðeins hvíld frá hneykslun, rausi og nöldri frá mér.  Ég geri mér líka vel grein fyrir því að ég fái nú aldeilis að heyra það ef mér verður á í málfræði og/eða stafsetningu. Þá er það að segja, að fullkomnun er ekki markmiðið.

Ekki væri verra ef e-r með svipaðar skoðanir rækjust nú á þetta og við gætum svo gert með okkur samsæri um að heilaþvo (... tilbaka... heilaþvo aftur!) þessa leiksoppa lítillar málvitundar og staðið síðan með þeim í fylkingarbrjósti og varist útlendum subbuskap í málið.

Að lokum - í bili -.  Þótt ég skrifi svona fjálglega um nauðgun íslenskunnar, er ég ekki pipraðri en svo að mér finnst eiginlega allt í lagi að fólk sletti svolítið... svo framarlega að það viti að það er ekki að tala íslensku!  Mér finnst líka mjög hallærislegt þegar fólk er að því komið að sletta (getur komið fyrir á bestu bæjum, ekki síst þegar fólk er stressað t.d. í sjónvarpi) og segir:  "... eins og maður segir á vondri íslensku 'global' þáttur..."  Þetta er ekkert vond íslenska, alls ekki, þetta er góð enska!

Gaman væri að fá "heimsókn", athugasemdir, ábendingar og herbrögð til að plástra og heila tunguna (hún er með skán og veldur (and)-fýlu)

Kannski tek ég málnotkunarpúlsinn á fjölmiðlum og embættismönnum. Sennilega verð ég ráðkæn og hrósa þeim sem mér finnst fara vel með.  Skussunum gef ég tækifæri til að bæta sitt ráð/mál áður en ég ræðst beint að þeim. Það getur farið svo að það verði óþarfi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband