Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Jafningjafræðsla um efnahagsmál

Ég kann ekki fjalla um alþjóðaefnahagsmál. Ég er ekki hagfræðingur. Ég er ekki lánadrottinn. Ég hef ekki sambönd við þá sem með þessi mál sýsla. Ég skil ekki nógu vel þá gullmola sem hrjóta af vörum forystumanna og veit ekki einu sinni hvort það sé gull eða hráki. Ég skulda bara húsnæðislán. Hef alltaf borgað þær skuldir sem ég hef stofnað til. Hef m.a.s. alltaf gripið hverja krónu sem ég hef ekki nauðsynlega þurft að nota og sett hana á bankareikning. Þar með hef ég lært að ég hefði frekar átt að kaupa mér úlpu, snyrtivörur, skartgrip, úr, veski, fara í hárgreiðslu, leikhús, bíó, kaffihús og endilega kaupa mér "dekurdag" - eða dekurviku. Já, ég hefði getað borgað dekurmánuði fyrir það sem hvarf af sparireikningnum mínum.

 

Hvar eru höfðingjarnir núna, sem slógu um sig með því m.a. að veita sér allt ofangreint og rúmlega það?  Voru þeir í lúxus fyrir peningana úr sparibauknum mínum og allra hinna sparifjáreigendanna?

 

Hvað gerist þegar óreiðumaður* er kominn á hausinn og fjölskyldan** reynir að skjóta saman handa honum svo hann þurfi ekki að sofa á Miklatúni undir runna? Slær hann ekki bara fleiri lán***, hefur það fínt í rósrauðri vímunni, býður sukkvinum sínum á fínan stað og býður hvað eftir annað "á hringinn". Hvað er langt í að hann verði búinn að eyða familíusamskotunum og á ný komið að skuldadögum á nýja láninu?

Er einhver jafningi jafnari en ég og getur sagt mér hvernig allt þetta er í pottinn búið.

Hvernig er það með stóra lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? "Við vonumst til að þurfa ekki að nota það allt"

Þýðir það að IMF verður bakhjarl, tilbúinn með upphæð sem virðist þurfa til. Svo ef okkur spilast vel úr, þá þurfi ekki að taka allt lánið og firra okkur gífurvöxtunum?

Svona svipað og þegar fólk fær heimild fyrir yfirdrætti, svona til öryggis, en þarf svo ekki að borga nema af því sem það nýtir af heimildinni, - og ekkert (nema kannski þóknun) sé yfirdrátturinn ekki nýttur. 


KARDEMOMMUBÆRINN Í NÝJU LJÓSI; kreppuhönnuðirnir

ÚTRÁSARVÍKINGARNIR

Við býsna mikið berumst á,

til Bretlands erum farnir.

Í Danmörku flest keyptum, já

við útrásarvíkingarnir.

Við kaupum og seljum út um allt

og græðum meira en hundraðfalt.

Svo græðum við barasta meir og meir

já við Björgólfur, Hannes og Jón Ásgeir.

 

Við kaupa það sem finnum falt

í flestum skúmaskotum.

Og fljúgum síðan út um allt

á nýjum einkaþotum.

Og enginn spyr okkur ekkert um,

með alla pressuna í vasanum.

Svo græðum við barasta meir og meir

já við Björgólfur, Hannes og Jón Ásgeir.

 

BANKAMENNIRNIR

Við digrum samning erum á,

svo endalaust við græðum.

Í sjóði landsins nú skal ná

með nýjum hagnaðarfræðum.

Og til að halda okkur gangandi

við ruplum suður á Bretlandi.

Já, það er nú meira, hvað karlinn er klár,

já við Sigurjón, Welding og Heiðar Már.

Við veiðum stundum lax með lús

og leigjum þyrlur allir.

Við byggjum okkur lúxushús

og ljúfar sumarhallir.

Og ökum um á Roverum

og partý með útlendum söngvurum.

Já við erum alls engin meðalgrein flón,

já við Heiðar Már, Welding og Sigurjón.

 

ÞJÓÐIN

Dvel ég í draumaheim

og dýrka víkingana.

Sólarferðir, borga-geim...

og skíðaferðir plana.

Flatskjár, raðhús, freyðivín,

fellihýsi og sleði.

Svona líður ævi mín

í kaupæði og gleði.

 

DABBI

Hér mætir Dabbi, sjá

með alvæpni ó-já.

Með stýrivexti og verðbólgu

og vaxtahækkun, vá.

Í Svörtuloftum er

og stjórna öllu hér.

Hið litla, montna Glitnis-grey

nú mætti gá að sér.

Ég kalla: "Gagg með kló í Baugsins-skinni,

þá kveð ég, þér ég næ að þessu sinni.

Þó að það kosti kannski hér

að við steytum upp á sker,

þá tek ég bara allt heila klabbið

í hafdjúpið með mér - HA HA HA HA"

 

JÓHANNA

Ja fussum svei, ja fussum svei.

Mig furðar þetta rót.

Í hverju skoti skúm og ryk

og skran og rusl og dót.

Og skuldasúpa út um allt,

en eignir engar finn.

Víkingarnir flugu út

og hirtu afganginn.

 

Já ástandið er ansi svart,

já allt sem moldarflag.

Og kraftaverk nú þyrfti til

að koma öllu í lag.

Ég hækka bætur, hirði upp drasl

og hreinsa skítinn hér.

Já, núna loksins kom að því.

Minn tími kominn er.

 

ÚTRÁSARVÍKINGAR OG BANKAMENN

Hvar er bankinn minn?

Hvar er kaupaukinn?

Hvar er stóri feiti kaupréttarsamningurinn?

Hvar er flugrisinn?

Og hvar er Baugurinn?

Sérðu markað fyrir hlutabréfaviðskiptin?

Ég er viss um að það var hér allt í gær.

 

Sérðu gjaldeyri?

Sérðu markaði?

Eða síbrosandi stóráhættufjárfesti?

Sérðu þotuna?

Eða jeppana?

Sérðu fylgispöku faguryrtu þjóðina?

Ég er viss um að það var hér allt í gær.

 

Sérðu Illuga?

stuttbuxnastrákana?

Hvar er Bjarni Ben og menntamálaráðherra?

Hvar er Guðni minn?

og öll Samfylkingin?

Hvar er Björgvin, hvar er Solla, hver er forsetinn?

Ég er viss um að þau voru með í gær.

Já, ég er viss um að þau voru með í gær.

 

 

Sungið með sínu nefi - við þekkt lög úr nokkrum barnaleikritum.

Höfundur: Kalli.

 


Getur þú látið gott af þér leiða? Já, örugglega! : )

Þörf fyrir SPARIFÖT fyrir JÓLIN

Rauði krossinn leitar eftir aðstoð almennings til að gefa vel með farinn sparifatnað fyrir börn og fullorðna í sérstakri sparifatasöfnun laugardaginn 22. nóvember kl. 11-15. Með því að gefa í söfnun Rauða krossins er hægt að veita fjölskyldum og einstaklingum tækifæri til að eignast spariföt fyrir jólin í fataúthlutun félagsins eða fá þau á hagstæðu verði í Rauðakrossbúðunum.


Rauði krossinn hvetur alla til að kíkja í skápana og finna föt sem ekki eru lengur í notkun en gætu öðlast nýtt líf hjá nýjum eiganda. Tekið verður á móti sparifatnaðinum á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Á höfuðborgarsvæðinu:

Kópavogur, sjálfboðamiðstöðin Hamraborg 11, 2. hæð

Hafnarfjörður, Rauða kross húsið Strandgötu 24 - inngangur frá Fjarðargötu
Garðabær, Hrísmóum 4, Garðatorgi
Álftanes, Haukshúsið á Álftanesi
Reykjavík:
Laugavegi 116, gengið inn frá Grettisgötu
Vífilfell hf. Stuðlahálsi 1- inngangur við hlið hússins (verksmiðjumegin)
Í hjólhýsi Rauða krossins við Menningarmiðstöðina Gerðuberg
Mosfellsbær, Þverholti 7

Leyfi mér að setja þetta inn, þar sem málefnið er gott og áríðandi.


GLEÐISÖNGUR SPARIFJÁREIGANDANS

Gæinn sem geymir aurinn minn

 

Ég finn það gegnum netið

að ég kemst ekki inn

á bankareikninginn,

en ég veit að það er gæi

sem geymir aurinn minn,

sem gætir alls míns fjár,

og er svo fjandi klár,

kann fjármál upp á hár,

býður hæstu vextina,

og jólagjöf hvert ár.

 

Ég veit hann axlar ábyrgð,

en vælir ekki neitt,

fær þess vegna vel greitt,

hendur hans svo hvítþvegnar

og hárið aftursleikt.

Þó segi' í blöðunum

frá bankagjaldþrotum

hann fullvissar mig um:

Það er engin áhætta

í markaðssjóðunum.

 

Ég veit að þessi gæi

er vel að sér og vís;

í skattaparadís

á hann eflaust fúlgur fjár,

ef hann kemst á hálan ís.

Því oftast er það sá,

sem minnstan pening á,

sem skuldin endar hjá. -

Fáir slökkva eldana,

sem fyrstir kveikja þá.

Október 2008.

Lagið við ljóð Davíðs Stefánssonar, - "Konan sem kyndir ofninn minn"


Kvikindislegur - óábyrg færsla - enda felubloggari (*-*)

 Lýtalækningar

Íslenskur lýtalæknir var staddur á ráðstefnu erlendis með kollegum sínum. Eftir langa og stranga dagskrá ráðstefnunnar héldu ráðstefnugestir á öldurhús og gerðu sér glaðan dag. Eftir því sem líða fór á kvöldið og nóttina þynntist hópurinn og lokst sátu einungis þeir þaulsetnustu eftir.
Þegar þeir höfðu ekkert meira að tala um fóru þeir að segja hetjusögur af þeim afrekum sem þeir höfðu unnið á skurðborðinu.

Einn Bretinn sagði sögu af því að hann ásamt teymi sínu hafi tekið á móti sjúklingi sem missti hendina í prentsmiðju. Á sjúklinginn græddu þeir nýjan handlegg, lófa og fingur og eftir að hann kom til starfa aftur varð hann svo góður og öflugur verkmaður að hann vann á við 4 og því fóru þrír á atvinnuleysisskrá sem áður störfuðu hjá fyrirtækinu.

Rússnenskum lækni fannst ekki mikið til þess koma og sagði frá manni sem lent hafði inní kjarnaofni. Þeir fengu ekkert annað en hárið inná skurðborðið til sín, græddu á það höfuð, búk og útlimi. Þessi maður varð svo góður verkmaður þegar hann snéri aftur til starfa að hægt var að segja upp heilli vakt í kjarnorkuverinu, 9 manns fóru á atvinnuleysisskrá.

Íslenski læknirinn sagði iss við þessari sögu. "Ég var einu sinni staddur niðrí Austurstræti og fann rosalega vonda prumpulykt. Ég veiddi hana í poka og brunaði með hana uppá Borgarspítala og skellti henni á skurðborðið. Við græddum á þetta búk, höfuð, útlimi og enduðum með að setja krullur ofaná þetta allt saman. Úr þessu varð Davíð Oddsson og hann er á góðri leið með að setja alla þjóðina á atvinnuleysisskrá".


Alls EKKI FYNDIÐ, bara svo afbragðsVEL gert

Margir hafa eflaust séð þetta eða heyrt. Ekki flokka ég þetta einu sinni undir 'tragikómedíu' hugsanlega frekar sem kómíska tragedíu.  Held að höfundurinn, Hallgrímur Helgason, hafi lesið þetta upp í "Kiljunni". Hvað með það, sjaldan er gott Visakort of oft strokið.

Ísland er stjórnlaust, því enginn því stjórnar
Ísland er fleki af dýrustu gerð
Ísland er landið sem Flokkurinn fórnar
Ísland á reki í sjónum þú sérð

 

Ísland í forsetans orðanna skrúði
Ísland sem bankana auðmönnum gaf
Ísland sem sonanna afrekum trúði
Ísland er land sem á verðinum svaf

 

Íslensk er þjóðin sem allt fyrir greiðir
Íslensk er krónan sem fellur hvern dag
Íslensk er höndin sem afvegaleiðir
Íslensk er trúin: "Það kemst allt í lag"

 

Íslensk er bjartsýna alheimskuvissan
um íslenskan sigur í sérhverri þraut
Íslensk er góðæris átveisluhryssan
sem íslenskan lepur nú kreppunnar graut

 

Ísland er landið sem öllu vill gleyma
sem Ísland á annarra hlut hefur gert
Íslenska þjóð, þér var ætlað að geyma
hið íslenska nafn sem þú hefur nú svert

 

Íslandi stýra nú altómir sjóðir
Ísland nú gengur við betlandi staf
að Íslandi sækja nú alls konar þjóðir
Ísland er sokkið í skuldanna haf

 
Höf: Hallgrímur Helgasson

 


Tapaði engu í dag - þvert á móti

 

 14 tommu dekk á Toyota Corolla

Bíllinn minn gamli, sem nú hefur safnast til feðra sinna, arfleiddi mig af næstum nýjum dekkjum sínum.

Bíllinn minn fíni, aldrei átt annað en gamlar druslur hingað til, var á ónýtum dekkjum.

Nú voru góð ráð og góð dekk, dýr.

Hringdi í 6-8 dekkjafyrirtæki til að kanna verð og hvort tekin væru næstum ný en aðeins notuð dekk "uppí"

Það er skemmst frá því að segja að verð á "ganginum" var frá 37.000 til 54.000 MEÐ umfelgun.

GÚMMÍVINNUSTOFAN í Skipholti kom lang, lang, lang best út og stórum betur en Vaka sem á að vera svo "ódýr"

Ég spurði eiganda GÚMMÍVINNUSTOFUNNAR hvort ég mætti setja upplýsingar um þeirra frábæru þjónustu og sanngjarn verð, á bloggið mitt. Hann var auðvitað bara ánægður með það.

Nú ek ég um með stolti og öryggi á dekkjunum frá þeim.

Nú getur helv... snjórinn komið ef hann þorir. 


Sekt, sakleysi, þöggun, leynd, varúð

 

Enn síður en aðrir veit ég hver er sekur eða saklaus. Og enn síður á hvern hátt þeir seku eru sekir. Og allra síst hvernig þeir fóru að því.  Hafi þeir gert þetta "alveg óvart" eru þeir heimskir upp til hópa og hafa ekki verið starfi sínu vaxnir.  Hafi þeir gert þetta allt af ráðnum hug, hafa þeir líka verið vanhæfir, - vegna saknæmra vinnubragða.  Sem sagt réttir menn á röngum stöðum, eða rangir menn á/í réttum stöðum, hvernig sem á það er litið.

Eitt verð ég þó að segja að mér finnist sérkennilegt. Fólk sakar ráðamenn, með forsætisráðherra í fararbroddi, um leynd, skort á upplýsingastreymi og þumbarahátt.

Auðvitað á að upplýsa almenning um ástand, horfur og bjargráð, EN það er ekki hægt að segja öllum frá öllu meðan á samningaumræðum og -gerð stendur.  Það getur beinlínis sett áætlanir og samninga í uppnám ef fréttist um ráðabrugg og herbrögð.

Við erum ekki sambandslaus við umheiminn og heimurinn fær bitastæðar fréttir af okkur.

Fáir gleyma að það fréttist í Bretaveldi það sem seðlabankastjóri sagði í sjónvarpsviðtali, - áður en hann frétti að hann hefði haft þau ummæli. (Nenni ekki að rekja nöfn og málefni, það vita allir um/við hvað er átt) Þau ummæli hafa sennilega dregið stærri dilk á eftir sér heldur en nokkurn tíma mun koma af fjalli.

Það er ekki hægt að segja öllum allt, jafnóðum. M.a.s. í bílakaupum þarf svolítið "pókerfeis". Maður er e.t.v."volgur" gagnvart 3-4 bílasölum - hefur ekki gert upp hug sinn. Fleiri en einn er um hituna á hverjum stað - hver með sína hugmynd um "sanngjarnt" verð.  Það er sko hreint ekki hægt að vera í sambandi við alla þessa aðila á meðan pælingarnar fara fram. Þú vilt fá besta kostinn (helst á lægsta verðinu) á sanngjörnu verði m.v. það sem þú getur fram reitt og fá að vita nákvæmlega þau kjör sem áhvílandi lán hefur. Er bíllinn á ónýtum dekkjum og er ódýrari þess vegna.  Á "hinn" biðillinn reiðufé, býður hann þá lægra og sleppur með það. Er bíllinn sem "hinn" vill ekki kannski svolítið dýrari af því að góð dekk á felgum fylgja?  Er "hinn" búinn að fatta það og þar með að óhætt sé að borga dálítið meira. Eða býður hann of lítið af því að hann veit ekki af þessum kaupbæti?

Þetta lítur nú út fyrir að vera bílakaupasaga mín (sem hún er) er þetta gæti líka alveg verið gjaldeyrislánasamningsumræður í ansi smækkaðri mynd... Gætum við haft það svona í hugskotinu?   Er hægt að skilja eitthvað af "pukrinu" þegar maður setur það í samhengi.

Hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn, aldrei viljað neitt með þá hafa nema þá í von um að græða eitthvað (t.d. molakaffi) en ég treysti forystumönnum vel til að vinna í þessum næstum ókleifu málum. Hvort sem það eru Gissur, Geir, Gunnar, Héðinn eða Njáll sem nú standa uppí lagklaufir í annarra manna skít, vil ég trúa að þeir geri það besta sem hægt er í stöðunni.

Það er allavega enginn annar sérstakur sem ég vildi frekar. Sumir kynnu að segja að lítill munur væri á kúk og skít en þá svara ég - að ég vilji frekar þekktan kúk en ókunnan skít.

 

 

Ef of mikið er lagt á asna: Hlassið hrynur - hann í lausu lofti.

 

 

 ES  Já, ég keypti bílinn sem var seldur í október!      


Lítil og krúttleg bankasaga (*&*) VÁ, TILBOÐIÐ, mar!

Veit ekki hvort skal brosa eða yggla sig við svona framsetningu, allavega fæ ég svokallaðan aulahroll. Annað hvort er bankinn (markaðsdeildin) fífl, eða þeir halda að fólk sé fífl eða, það sem verst væri, - að fólk væri í raun fífl. Hafi ég skilið þetta vitlaust, þá er ég auðvitað fíflið Wizard

Banki auglýsir þessa dagana að þeir sem leggi inn eða stofni ákveðinn reikning fyrir 10. nóvember, fái 10% vaxtaálag á áunna vexti.

Þar sem skuldir mínar voru skráðar með ósýnilegu bleki, telst ég enn til milljónamæringa. Gott væri því að geyma svo sem ein mánaðarlaun á góðum reikningi (hefði ég haft rúmar 62.000.000 "meðan allt lék í lyndi" hefði þetta skipt nokkru). Reiknaði svo með leifturhraða eins og eðalfífl gera og fíflaútkoman var þessi:

Legg inn 100.000 þann 10.nóv

Vextir á reikningnum eru sennilega aðeins undir verðbólgu, ágætir samt í þessu fjandans ástandi - 17,2%.

Vextir til áramóta yrðu kr: 2.388

10% vaxtaálag yrði því 239 krónur.

Vonandi er hægt að ganga frá þessu í heimabanka, annars færi "ábótin" í bensínkostnað Blush

Jafnvel þótt gamli maðurinn sem ekki á tölvu færi í strætó í bankann, dygði þetta ekki til.

AUÐVITAÐ yrði þetta rosalegt ef maður ætti milljón - þá næði maður fyrir pizzu; 2388 krónum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband