Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Kvikmyndasafn Íslands 2008

Um daginn var rússneska stórmyndin Hamlet sýnd í Bæjarbíó (rússn: Gamlet ekkert "H" þar) Hún er "að öðrum Hamletmyndum ólöstuðum, fremst meðal jafningja"

Á morgun, þri. 22.apr og aftur lau. 26.apr. verður Flamenco Carlos Saura. Hún er ótrúlega flott, var með gæsahúð mestallan tímann, ef ekki bara oddaflug.

Þeir sem hafa áhuga á að skoða gamla og nýja gullmola ættu að finna ýmislegt við sitt hæfi í Bæjarbíó, fyrir 500 kall.

Kvikmyndasafnið er með vefsíðuna: www.kvikmyndasafn.is

 


Húsvíkingur hafði í hótunum við Kópavogsbúa

Mikið hefur verið rætt og ritað um nauðsyn eða óþarfa skilgreininga á uppruna og/eða þjóðerni/búsetu aðila í umfjöllun fréttamiðla.

Hvað er að því að láta fylgja upplýsingar um uppruna fólks og/eða búsetu þegar birtar eru fréttir eða aðrar umsagnir?

Af hverju má ekki segja að Pólverjar hafi barið aðra Pólverja í klessu?  (á e.t.v. að segja "Hópur manna lamdi á öðrum hópi manna í Keilufellinu"?)

Af hverju má ekki segja að hópur Asíuættaðra unglinga hafi lumbrað á skólabróður sínum í Hagaskóla?

Af hverju ætti ekki að segja frá ef 4 Litháar væru handteknir vegna innbrots?

Hvernig sneri þetta að okkur ef málin gengju í "hina áttina"?  Eigum við kannski ekki að segja frá því ef íslenskir óþokkar og ofstopamenn í annarlegu ástandi gengju í skrokk á pólskum trésmið? 

Það er líka svo komið eftir að farið hefur að bera á ört vaxandi glæpastafsemi útlendinga hér á landi, að taka fram þegar Íslendingar eiga í hlut, hreinlega til að bera blak af útlendingum sem annars yrðu e.t.v. "grunaðir" af almenningi.  Full ástæða er í frásögn af  innbroti og ráni að taka t.d. fram:  "Þrír íslenskir menn sem áður hafa komist í kast við lögin, lögðu íbúð við Laugaveginum í rúst og stálu öllum verðmætum og "söluhæfum" hlutum"

Hvaða voðalega hræðsla er þetta?  Vonandi heldur enginn að ég hafi horn í síðu Húsvíkinga þótt fyrirsögnin sé höfð svona, til að vekja athygli á málinu.

með kveðju,

íslenskur bloggari af höfuðborgarsvæðinu!


K Ó R A N I N N

Fyrir þá sem vilja lesa og kynna sér Kóraninn, er hann að finna eftir þessari slóð, reyndar á ensku:

http://nmsismail.faithweb.com/quaran.htm


K y n d i l l

Friðar- og sameiningartákn í aðdraganda Ólympíuleikanna. Kyndilferð umhverfis jörðina. Tugþúsundir mótmælenda. Tugþúsundir öryggisvarða. Kyndilflugreisur.

Þetta kostar offjár. Hvað væri hægt að kaupa mörg heilsuverndandi flugnanet, bóluefni, heilsuverndarstaði, lyf, næringu, hreint vatn eða hreinlætisaðstöðu fyrir andvirðið?

Mér finnst að hafa mætti táknræna heimsreisu logans; hafa ákveðna staði á áfangastöðum eldsins og tendra þar eld á skipulögðum, ráðgerðum tíma; láta logann "stökkva" milli staða.

Þá gætu mótmælendur notað annan vettvang fyrir sín hugðarmál, fólk þyrfti ekki að slasast eða jafnvel láta lífið fyrir FRIÐARtáknið.


Gæludýr frá öðrum hnöttum.

Kannski hafa margir á undan mér velt þessu upp eftir að hafa velt vöngum vel og lengi.

Hvernig stendur á þessum yfirlýsingum sem gegnumgangandi eru um geimverur sem hingað eiga að hafa komið í jarðarför og stundum sést.

Alls kyns meintar skrítnar fígúrur eru álitnar verur frá öðrum kerfum. Þetta er auðvitað ekki "fólkið" sjálft, heldur (gælu-) dýr sem notaðir eru í könnunarleiðangra.  Hvað gerði mannfólkið hér á Jörð í fyrstu geimskotunum? Jú, jú, þeir sendu t.d. apa.  Sjáið þið ekki fréttir í "blöðum" "þar úti" með lýsingar á jarðverunum?


BÍÓ

Fór í alvörubíó í kvöld. Á miðanum stóð: "BEZTU SÆTI" og neðst "Varðveitið miðann unz sýningu er lokið"

Í anddyrinu var tímavél sem gerði mig 40-45 árum yngri! Enga fann ég reyndar poppkornslyktina, enda voru á þeim tíma, í besta falli, seldir litlir, lokaðir plast-(eða sellófan-?) pokar með köldu poppi.

Allt virtist lítið eða ekkert breytt. Fyrst inngangurinn og miðasalan, svo anddyrið, innihurðir, veggskreytingar og allt hvaðeina. Sætin eru því miður líka af gamla skólanum og eitthvað hefur afturendinn á mér dreift sér meira en stólaseturnar. Fer með kodda næst og í "aðhaldssamfellu".

Frábært að Kvikmyndasafn Íslands skuli hafa þetta húsnæði til afnota (eiga?) Spurning hvort ekki væri löngu búið að rífa allt í tætlur, væri húsið í Reykjavík?!

BÆJARBÍÓ í Hafnarfirði sýndi í kvöld sænsku myndina "Elvira Madigan" frá 1967 (m.ísl.texta) Verð 500 krónur. 

Sýningaskrá fæst og er þ.a.a. líka á netinu.

 


Væru ekki flestir til í slíkt lífshlaup?

Næsta líf eftir Woody Allen 


Í næsta lífi langar mig að lifa afturábak. Þá myndi maður byrja dauður, svo það væri frá.  Eftir það vaknaði maður á elliheimili og liði betur með degi hverjum uns manni yrði hent út fyrir að vera of hraustur. Þá gæti maður farið heim og nýtt lífeyrinn. Svo þegar þú hæfir störf fengirðu gullúr og partý haldið á fyrsta degi.

 

Þá kæmi 40 ára vinnutímabil, þangað til þú ert orðinn nógu ungur til að njóta þess að hætta störfum.

Þú djammar, drekkur brennivín og sukkar svona almennt, þangað til þú verður tilbúinn fyrir framhaldsskólann.  Næst færirðu í grunnskóla, nytir æskunnar,bernskunnar og leikjanna. Þú bærir enga ábyrgð, ekki heldur þegar þú ert orðinn ungbarn - þangað til þú fæðist.

Síðustu 9 nýturðu þess að fljóta um í umhverfi sem sæmdi lúxus heilsubaði, með jöfnum hita og allri þjónustu. Íverustaðurinn stækkaði með hverjum degi og Jibbí, þú endar allt sem dásamleg fullnæging!


 

Takist til þóknanlegrar meðferðar.


Gott sjálfsálit er mikilvægt

Vinkona mín fór ásamt annarri í Bónus fyrir rúmri viku. Sú ætlaði að útbúa spennandi smárétti til að bjóða útlendum gestum. Hún vildi endilega kaupa hrútspunga, það væri eitthvað svo "ekta".

Hún fann ekki pungana góðu; hélt þeir væru e.t.v. ekki til sölu nema rétt um Þorrann en vildi samt ganga úr skugga um það.  Eftir skimun í allar áttir og flest skot Bónuss (í Kópavogi) sá hún loks mann í Bónus-treyju. 

"Eru ekki til hrútspungar?"  "Schorrí, da, njé, schlopf blash bla". Hún mátti svo sem vita að loks þegar maður finnur einhvern til aðstoðar, er sá í allflestum tilvikum útlendingur.

"HRÚTSPUNGAR!!!" sagði hún nú mjög skýrt og bara þetta eina orð, sá að ekki þýddi að gera flókna fyrirspurn. Aumingja maðurinn virtist hafa þó nokkra þjónustulund til að bera, horfði með fullri athygli í andlit spyrjandans, en spurnarsvipurinn gaf upp að hann skyldi ekki boffs. (Þvílík bjartsýni líka að reyna að spyrja útlending um svo lítt þekkta vörutegund)

Umrædd kona er ansi blátt áfram (vinkonan hafði fært sig aðeins frá, enda vön þrasi og stundum veseni hjá hinni) Konan reyndi einu sinni enn, sagði hátt og skýrt "hrútspungar" og benti í átt að fermingarbróður aumingja útlendingsins. "Ook, ook, OK, veit" svaraði hann og gekk ákveðnum skrefum burt frá þeim. Þær litu hvor á aðra og nokkuð ánægðar með að hún skyldi hafa notað hugmyndaflugið og látbragðið það listilega að hún hefði komið manninum í skilning.

Hann kom að vörmu spori, brosti fallega og rétti henni pakka af taðreyktum hrossabjúgum.


KRÓKADÍLL í kerfinu (Holræsa-? Nei, heilbrigðis-)

Gott tilboð en bara uppselt

Ég hélt ég væri í góðum díl við heilbrigðiskerfið, en mætti krókadíl.

Ætlaði mér aldrei að blogga um sjálfa mig en mér var bara ofboðið.

Hvað ef ég væri ekki ég, heldur gömul kona (eða karl), óframfærinn unglingur eða annar sem treysti á kerfið án þess að reyna að bera hönd fyrir höfuð sér þegar á móti blési?

Læt þessa "sögu" frá mér sem víti til varnaðar og ábendingu fyrir ástvini þeirra sem lasnir eru og hafa ekki þrek eða uppurð til að olnboga sig áfram í frumskóginum án hjálpar. Svo vonast ég auðvitað líka eftir einhverri vorkunnsemi

Þegar ég fer út úr húsi er ég yfirleitt á leið til að hitta einhvern úr heilbrigðiskerfinu. Allar færslur í dagbókinni minni byrja á: "hjúkrunar-, sjúkra-, heilsu-, læknis-, rannsóknar- eða öðru í svipuðum dúr, sem ég man ekki að nefna í augnablikinu.

Yfirleitt fæ ég frábæra þjónustu; allir elskulegir, hjálpsamir og nærgætnir, en bara EKKI ALLTAF.

Um daginn fékk ég óbærilega verki. Hafði áður verið „bara" slæm.  Svo illa var ég haldin að klósettferð varð að dagsverkefni og það með óhljóðum.

„Eftir helgina" hringdi ég í gigtarlækninn minn og bað um að hann hringdi í mig (þann háttinn hefur hann á símaviðtölum) 

Einhverra hluta vegna náði hann ekki að sinna því. Um nóttina, svefnlaus af verkjum, sendi ég honum rafpóst; sagðist illa haldin og hvort hann héldi að hann gæti eitthvað reynt að hjálpa mér.

Hann hringdi daginn eftir, sagði mér að panta tíma hjá honum og ávítaði mig fyrir að hafa haft samskipti með rafpósti, - það væri lögbrot.

Fékk tíma hjá honum eftir 12 daga!!!  Nú var ég farin að tárast. Gat engan veginn verið, stöðugir verkir, líka sitjandi og liggjandi. Gat ekkert gert. Svona gæti ég ekki verið í næstum hálfan mánuð!  Furðulegt hvað það ofarlega samt að komast ekki með góðu móti á klóið.

Pantaði tíma hjá heimilislækni. Fékk tíma eftir 8 daga! Of langt líka.

Reyndi að fá tíma „bara hjá einhverjum" í læknastöðinni þar sem „minn" er. Enginn laus fyrr en „minn".  Mér bent á Gigtarfélagið.

Gigtarfélagið með einn lækni, tekur ekki fleiri sjúklinga. Mér bent á Göngudeild gigtarsjúklinga.

Göngudeild gigtarsjúklinga tekur ekki á móti fleiri (nýjum?) sjúklingum. Bent á Læknavaktina.

Læknavaktin bendir mér á að réttari leið sé að fara á Bráðamóttökuna.

Bráðamóttakan gat ekki sinnt þessu og baðst frá því að ég kæmi, þeir gætu ekkert hafst að.

Einhvern þeirra sem ég talaði við í þessari þvögu, spurði hvort ekki væri bara skást að lenda í „mjúku bílslysi" Farið væri þá allavega með mig í sjúkrabíl á einhvern stað til aðhlynningar.

Tveimur dögum eftir að „minn" ávítaði mig fyrir rafpóstsendinguna og ofangreindar bænaleiðir, fór ég á Læknavaktina, án þess að gera boð á undan mér. Þaðan fór ég með lyfseðil fyrir 20 stk af verkjalyfi.

Er þetta algengt?  Hvert á maður að leita í bráðanauðsyn?  Hvað gera aðstandendur andlega og líkamlega sjúkra þegar svipað stendur á?


ÞRIÐJI heimurinn. Hvar eru FYRSTI OG ANNAR heimurinn?

Búinn að leita nokkuð í fræðibókmenntum, kannski ekki nóg úr því að ég fann ekki skýringu. Nú bið ég því aðra beturvitringa að senda mér fróðleik.

Öll heyrum við talað og skrifað um "Þriðja heiminn". Við höfum óskýra (allavega ég) hugmynd um hvaða lönd flokkist þar undir.

Veit einhver nánari skilgreiningu á þessum "heimi" og AF HVERJU ÞETTA ER KALLAÐ "ÞRIÐJI HEIMURINN"? Það leiðir svo af sér aðra spurningu sem mig langar líka rosalega að fá svar við:

HVAR ER ÞÁ FYRSTI HEIMURINN OG ANNAR HEIMURINN?

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband